141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er hv. þm. Mörður Árnason farinn að oftúlka orð mín á marga vegu, svo ég segi ekki rangtúlka. Það sem ég var einfaldlega að benda á var að með þeirri breytingu sem ráðherrarnir tveir báru ábyrgð á var verið að raska ferli og niðurstöðu sem að mínu mati hefði getað verið grundvöllur að einhvers konar sátt. Röskunin er öll á einn veg og það setur málið í allt annað ljós en það hefði ella verið. Þar með er byrjað að rugga bátnum ef svo má segja og enginn veit þá hver fellur fyrir borð. Ekki ætla ég að fara að prútta í ræðustól þingsins við hv. þm. Mörð Árnason. Ég hafna því ef hugmynd hans er sú að það eigi að vinna þetta ferli þannig að fyrst í ferlinu verði búin til einhver röðun, svo ákveði ráðherrar að ganga lengra á sumum sviðum en gert er ráð fyrir í röðuninni og breyta henni (MÁ: Fyrst er röðun, svo er flokkun.) — flokkun, alveg rétt, hv. þingmaður. Þegar jafnvægið er farið að hallast mjög í átt að pólitík þeirra og hugmyndafræði eigi það að vera útgangspunkturinn þegar menn fara að ræða aðra hluti. Ég hafna þessu. Og ég hafna líka því sjónarmiði sem mér hefur fundist koma allt of mikið fram frá hv. þm. Merði Árnasyni, um að þingið sé með einhverjum hætti (Forseti hringir.) bundið af þeirri niðurstöðu sem kom frá ráðherrunum tveimur, að ráðherrarnir tveir megi gera sínar tillögur (Forseti hringir.) út frá einhverjum forsendum en þingið megi það alls ekki.