141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að Reykjanesið er sannarlega einstakt. Ást mín á Reykjanesinu er eflaust jafnmikil og ást hv. þingmanns á því fallega og einstaka svæði. Við erum hins vegar ekki sammála um hvernig umgangast skuli þær náttúruauðlindir sem þar er að finna. Ég vil gera það að umtalsefni í þessu andsvari.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann bara hreint út: Vill hv. þingmaður að eitthvað verði virkjað á Reykjanesi? Vill hún kannski koma í veg fyrir að þar verði virkjað um allan aldur? Mér finnst umræðan og það sem fram kemur í fyrirvara hv. þingmanns taka dálítið mið af því.

Þegar virkjunarkostur er settur í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að gröfurnar séu mættar og náttúran og allt sem fylgir sé þar með komið í einstaka hættu. Nýtingarflokkur og nýtingarleyfi eru undirseld því að sjálfsögðu, ef maður horfir á Reykjanesið sérstaklega, að umhverfismat sé uppfyllt. Það að framkvæmd fari í nýtingarflokk er fyrsta skrefið að kannski 20 mismunandi leiðum og rannsóknum og umsögnum sem þarf að gera áður en hægt er að framkvæma. (Forseti hringir.) Ég leyfi mér að fullyrða að þá upplifun sem hv. þingmaður ræddi hér um áðan í tengslum við ferðaþjónustuna er hægt að flétta saman við annað. (Forseti hringir.) Það er hægt að nýta og njóta náttúrunnar.

Ég spyr hv. þingmann: Vill hún að virkjað verði á Reykjanesi yfir höfuð?