141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði svör hv. þingmanns hvað þetta varðar, mér finnst hún hafa gert allvel grein fyrir sinni afstöðu í þessum málum þó að ég sé ekki sammála henni í öllum efnum.

Ég spyr hv. þingmann hins vegar hvort hún hafi ekki áhyggjur af því eins og ég að rammaáætlun verði afgreidd frá þinginu í þeim mikla ágreiningi sem enn er til staðar, og þá er ég bæði að hugsa um ágreininginn sem við getum sagt að hún og fleiri sem tilheyra meiri hlutanum í umhverfis- og samgöngunefnd og meiri hlutanum í þinginu í þessu máli, hafa. Hv. þingmaður og fleiri þingmenn gera mjög alvarlegar athugasemdir, sérstaklega varðandi jarðvarmavirkjanir. Ég mundi álíta að þar væri um að ræða djúpstæðan ágreining við þá sem telja rétt að hafa jarðvarmavirkjanir í nýtingarflokki.

Svo er það ágreiningurinn í hina áttina, ef við getum orðað það svo, þ.e. ágreiningurinn á milli tillöguflytjenda og þeirra sem vilja ganga lengra í nýtingu. Þá vildi ég spyrja hv. þingmann: Hver er ávinningur af því að samþykkja rammaáætlun ef allur ágreiningur sem áður var til staðar er enn fyrir hendi þegar rammaáætlun hefur verið samþykkt? Hvað vinnum við með því? Verður ekki sami ágreiningurinn um þessi mál áfram? Mun hv. þingmaður t.d. ekki beita sér áfram gegn því að ráðist verði í framkvæmdir á þeim tilteknu svæðum á Reykjanesskaganum sem hún hefur gert athugasemdir við? (Forseti hringir.) Þar sem ég þekki hv. þingmann mundi ég ætla það.