141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:37]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Margir þeirra sem gagnrýna þá tillögu sem hér liggur fyrir og vilja færa hana í upprunalegt form, til þess forms sem hún var í þegar hún var kynnt af verkefnisstjórn, gagnrýna að sama skapi að ekki séu virkjunarhugmyndir í nýtingarflokki sem eru í biðflokki og komu þannig frá verkefnisstjórninni sjálfri.

Mig langar að fara aðeins yfir hvernig umræðan hefur snúist um eina virkjun og eina virkjunarhugmynd sem er í biðflokki en hefur verið gagnrýnt af talsmönnum þeirrar hugmyndar að sé ekki í nýtingarflokki, og það er Hagavatnsvirkjun. Ég held að hún sé einmitt ágætisdæmi um hvernig menn þrýsta á að hugmyndir séu settar í nýtingarflokk án þess að nægilegar rannsóknir og röksemdir liggi þar til grundvallar. Það er sem sagt mjög þrýst á að Hagavatnsvirkjun verði færð úr biðflokki yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar. Hagavatn er við rætur eystri Hagafellsjökuls syðst í Langjökli. Þarna eru líka Jarlhettur sem margir kannast við enda blasa þær við víða að sunnanlands.

Ég hef verið alfarið á móti þessari hugmynd. Hún raskar ósnertu og hrikalega fallegu landsvæði og slíkum svæðum fer fækkandi. Hún eyðileggur glæsilegt fossakerfi sem fellur um Farið niður úr vatninu. Ávinningur virkjunarinnar er lítill, 20 megavött sem seld yrðu inn á raforkukerfið eða til stórnotenda.

Eyþór Arnalds, stjórnarformaður Hagavatnsvirkjunar, segir að verkefnið hafi byrjað sem uppgræðsluverkefni en síðar hafi menn komið auga á að hægt væri að nýta vatnið til rafmagnsframleiðslu. Sveitarstjórnarmenn í Bláskógabyggð taka undir það og hafa sagt að verkefnið sé í raun og veru lýðheilsumál því að megnið af svifryki suðvestanlands sé komið úr umhverfi Hagavatns. Oddviti Bláskógabyggðar sagði á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd núna á dögunum að málið varðaði mannréttindi íbúa í sveitarfélaginu, það væri aðalatriðið að hefta sandfok og minnka svifryksmengun. Gróði af raforkusölu sé eiginlega aukaafurð. Þetta er eiginlega allt sprottið af góðsemi. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að þessi málflutningur væri byggður á sandi.

Nú hefur Ólafur Arnalds, jarðvegssérfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, bent á að sandfok gæti einmitt aukist við virkjun. Hætta sé á að jökuláin, sem rennur í vatnið, hlaði svo undir sig verði vatninu breytt í lón að aurkeila myndist sem fokið getur alveg gríðarlega úr. Hann segir enn fremur að rannsaka þurfi aurburð, uppfok og hleðslu á upptakasvæði, einnig sandrennsli og hvort hætta sé á stórauknu rennsli þegar hraunin fyllast, afdrif og uppsöfnun á rótarsandi og víðar, Brúarána og brottflutning efnis, rykmengun í Bláskógabyggð, magn og áhrif á lýðheilsu, mikilvægi Hagavatnssvæðis fyrir endurnýjun vistkerfa og jákvæð áhrif ryks á Suðurlandi og úti á sjó og loks þróun breytinga upp við jökul í fortíð, nútíð og framtíð og áhrif þeirra á sandsvæði og stíflulón.

Það eru engar smávægilegar rannsóknir sem þessi fræðimaður bendir á að enn þá sé eftir að gera. Samt sem áður er því haldið fram af talsmönnum þessarar virkjunar að það sé mikil synd að svæðið sé ekki strax komið í nýtingu.

Það er sjálfsagt að græða landið og hefta fok. Þarna hefur verið mikið landrof en ágætisárangur náðst á Haukadalsheiðinni og í kringum Sandvatn á undanförnum árum.

Mig langar líka til að minnast á bréf Ólafs Arnar Haraldssonar, forseta Ferðafélags Íslands, til Eyþórs Arnalds um virkjunina þar sem hann spyr mjög stórra spurninga, meðal annars hvort ráðgert sé að eyðileggja mikilúðlega fossinn, Nýjafoss, og einstakt útfallið í Farinu og reisa einnig háan stífluvegg ofan Einifossgljúfurs og hvort enn sé gert ráð fyrir að ræna Jarlhettukvíslinni úr farvegi sínum í Jarlhettudal og við skálann og veita kvíslinni í Hagavatn og fella Farið í stokk neðan Brekknafjalla. Enn fremur segir hann fróðlegt að fá að vita hvort leggja eigi loftlínur og tengivirki við Mosaskarð eða í nágrenni Brekknafjalla eða hvort leggja eigi línur í jörð.

Þá væri gott að vita allt um áhrif á stærð og vatnsborð vatnsins við Læmið, en það er jökuláin sem rennur út í vatnið og nágrenni. Enn fremur er gott að heyra um vegagerð og vinnuplön o.fl. sem fylgja virkjunarframkvæmdum. Þá er einnig nauðsynlegt að vita hversu mikið af sandfokssvæði umhverfis Hagavatn verður hægt að hefta með hækkun, stöðugu eða sveiflukenndu yfirborði vatnsborðsins, vitandi það að upptök sandblástursins eru á miklu stærra svæði en næst Læminu þar sem vatnið mun ná. Upptakasvæði sandblásturs nær m.a. langt út í Lambahraun þar sem vatnsborðshækkunin mun aldrei ná að hylja sandinn sem þar þyrlast upp. Ef ætlunin er að sveifla vatnsborðinu að einhverju ráði er löngu þekkt hvaða áhrif slíkt hefur á ný upptakasvæði sandfoks.

Forseti Ferðafélagsins spyr hvort gerðar hafi verið áreiðanlegar athugar á áhrifum nýrrar útfærslu virkjunar, þ.e. annarri útfærslu en þeirrar sem Orkuveita Reykjavíkur vann að á sínum tíma. Ólafur nefnir rök um einstakt náttúrufar, stórbrotna fegurð og verðmæti svæðisins fyrir ferðaþjónustu nú og ekki síður í lengri framtíð, og bendir á þá sívirku landmótun og umbrotasögu sem jarðfræðisaga svæðisins geymir og liggur sem opin og aðgengileg fræðslubók fyrir almenning. Jökullinn hefur ýmist hopað eða hlaupið fram og frá 1700 hafa orðið einn fimm stórflóð, síðast 1929 og 1939. Allt hefur það skilið eftir sig auðlæs ummerki og virkni sem ekki á að grípa inn í heldur opna og skýra jarðsöguna fyrir nemendum og ferðamönnum og vera enn ein prýði Bláskógabyggðar. Nálægð þessa magnaða og aðgengilega svæðis er í seilingarfjarlægð frá fjölsóttustu ferðamannaleiðum í byggð og getur útvíkkað þær og auðveldlega tengst þeim ferðamannastraumi. Ferðaþjónusta í Bláskógabyggð mun njóta þessa.

Ferðafélag Íslands hefur átt skála á þessu svæði í 70 ár og smíðað einar fjórar brýr á Farið. Ferðafélagið hefur verið með ferðir um svæðið í ferðaáætlun sinni og gefið út árbækur og annað efni um svæðið. Meðal annars er gengið og gist þarna í fjögurra daga göngu úr Skálpanesi milli Jarlhettna og jökuls og áfram ofan byggðar og loks um Klukkuskarð til Laugardals eða um Brúarárskörð fram í Tungur. Á þeirri gönguleið, sem er ótrúlega nálægt höfuðborgarsvæðinu, eru einstakar óraskaðar óbyggðir og öræfakyrrð steinsnar ofan byggðar.

Hagavatnsvirkjun gerbreytir þessu svæði og spillir rekstraraðstöðu Ferðafélagsins og því framboði sem félagið hefur á svæðinu. Skálinn, þótt lítill sé, er mikilvægur hlekkur í keðju skála á óslitinni gönguleið ofan byggðar frá Kili um Hagavatn, Hlöðuvelli, Skjaldbreið og allt til Kaldadalsvegar. Í rauninni er hægt að tengja þá skálaleið gönguleið sem nefnd hefur verið Reykjaleiðin og nær alla leið út á Reykjanesvita.

Nýlega keypti Ferðafélag Íslands hlut Bláskógabyggðar í Hlöðuvallaskálanum og boraði þar eftir vatni. Er fyrirhugað að bæta aðstöðu á allri gönguleiðinni fyrir göngufólk, hestamenn og fjallamenn, þar á meðal vatnsöflun og vatnssalerni við Hagavatnsskálann, smíði göngubrúar á Jarlhettukvísl o.fl. Það gefur augaleið að ferðaþjónustuaðilar eins og Ferðafélag Íslands og fleiri geta ekki annað en varið hagsmuni sína þegar fram koma hugmyndir um að spilla þeim stórlega og ekki er tekið tillit til langrar hefðar í rekstri Ferðafélagsins á svæðinu og framtíðaráforma.

Þarna er gott dæmi um að það fer ekki saman við þá nýtingu sem þegar er á þessum svæðum að nýta lítt röskuð og samfelld öræfi skammt ofan við byggð með einstökum verðmætum í náttúrufari og fyrir ferðaþjónustu landsins með þessum hætti. Afrakstur þessarar virkjunar er of lítill til að réttlæta óafturkræf spjöll á þessum verðmætum.

Þetta var lítið dæmi um hvernig þrýst er á að ein virkjunarhugmynd sé færð úr biðflokki yfir í nýtingarflokk — nota bene úr biðflokki þar sem afla á frekari upplýsinga — þrátt fyrir að enn eigi eftir að gera fjölmargar rannsóknir á svæðinu og þrátt fyrir þá miklu hagsmuni sem sýnt hefur verið fram á að þarna séu í húfi.

Ég vil í síðari hluta ræðu minnar fara yfir þann fyrirvara sem ég hef við rammaáætlun. Fyrst vil ég segja að það er mikið fagnaðarefni að hún sé komin fram. Það skiptir okkur mjög miklu máli að búið sé að færa þá vinnu í faglegan farveg með þeim hætti sem hér er gert. En nokkur atriði í fyrirliggjandi tillögu eru öðruvísi en ég hefði kosið og mun ég gera nokkra grein fyrir þeim.

Ég vil byrja á því að taka undir þau atriði sem fram komu í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur fyrr í umræðunni hvað varðar Reykjanesið. Þar er gríðarlega langt gengið, þar eru mjög margar hugmyndir í nýtingarflokki og margir hafa lýst verulegum áhyggjum af þeirri þróun mála. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns og bæti því við að óvíst er hvort jarðhitakerfið í Reykjanesi, vegna þess að það er samtengt, geti staðið undir svo stöðugri orkuvinnslu. Upplýsingar benda til þess að afföll í orkuvinnslu þar geti orðið umtalsverð. Fari menn því af stað með virkjanir, setji í gang holur sem skila ákveðinni orku er ekkert víst að það haldist mjög lengi. Að mínu mati eiga að minnsta kosti þrjár virkjunarhugmyndir betur heima í biðflokki og vil þá ég nefna Sveifluháls, Sandfell og Stóru-Sandvík. Og ég tek undir þær áhyggjur sem fram hafa komið varðandi Eldvörp.

Ég vil líka segja að ákvarðanir um orkuvinnslu, ekki bara á Reykjanesinu heldur á landinu öllu, hvort sem um er að ræða vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarma, á að taka í beinu samhengi við ákvarðanir um atvinnuuppbyggingu svo almenningi megi vera það ljóst hverju skuli fórnað og fyrir hvað. Handahófskennd virkjunarstefna og útsala á raforku, sem dugar ekki fyrir fjármagnskostnaði eins og nýleg skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur sýndi varðandi Hellisheiðarvirkjun, er gamaldags og klunnaleg atvinnustefna. Það er dæmi um hvernig erfið samfélagsleg átök leiddu til þess að miklum náttúrugersemum var fórnað án þess að nokkur arður hlytist af. Eðlilegt hefði verið að tryggja aðkomu almennings að svo veigamikilli og afdrifaríkri ákvörðun sem Hellisheiðarvirkjun var.

Ég vil segja hið sama varðandi neðri hluta Þjórsár, jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót, sem og virkjunarkosti á hálendi Íslands, auk Hagavatnsvirkjunar sem ég hef farið rækilega yfir hér, Búlandsvirkjunar við Skaftá og Hólmsárvirkjunar neðri við Atley; það er mitt mat að þessi svæði ættu með réttu að fara beint í verndarflokk. Svo dýrmæt eru þau í náttúrulegu samhengi vistkerfisins og svo dýrmæt eru þau þjóðinni allri um alla framtíð sem óspjölluð vatnasvæði, skóglendi og hálendisauðnir í skjóli hrikalegra jökla og fjalla.

Þjóðin á heimtingu á lýðræðislegri aðkomu að ákvörðunum um örlög þessara svæða. Hún er hinn raunverulegi handhafi þeirrar auðlindar sem eru náttúrugæði Íslands og felur í sér möguleikann á heilbrigðri útivist í hreinu lofti og óspjölluðu umhverfi.

Það er ómetanlegt að tengjast landslagi tilfinningaböndum og ofar verðgildi peninga því að náttúran er þeim sem hafa upplifað hana með þeim hætti sjálf uppspretta hamingjunnar, eða eins og Jóhannes úr Kötlum orti: „Maðurinn í landinu, landið í manninum, þar er friður guðs.“

Slíkar tilfinningar ber að umgangast með varúð og nærgætni því að ellegar hljótast ekki einungis óbætanleg sár á landi heldur á þjóðarsálinni allri. Eins og ég sagði áðan er rammaáætlun um vernd og nýtingu jákvætt skref til að færa málaflokkinn í faglegan skipulagsfarveg. Sú stjórnmálahreyfing sem ég tilheyri og heitir Björt framtíð stendur fyrir vinnubrögðum á borð við þau sem rammaáætlun boðar, þ.e. við gerum langtímaáætlanir, við skiptumst á skoðunum, við förum yfir rök með og á móti, við viljum að fram fari fordómalaus umræða þar sem við fögnum því að hægt sé að vera með mismunandi skoðanir í samfélagi okkar, að við getum komið saman og skipst á skoðunum og náð sameiginlegri niðurstöðu eftir því sem nokkur kostur er á.

Sú hreyfing sem ég nefni hér, Björt framtíð, er grænn flokkur og er hreyfing náttúruverndar, nýr umhverfisflokkur sem er að stíga sín fyrstu skref og nálgast þennan málaflokk á svipaðan hátt og ég lýsi hér, þ.e. að gríðarleg verðmæti séu fólgin í náttúru Íslands eins og hún er og vilji menn nýta hana séu varanlegustu verðmætin fólgin í því að hafa hana eins og hún er fyrir margvíslega atvinnustarfsemi, fyrir ferðamennsku að sjálfsögðu og útivist og fyrir hamingju landsmanna.

Ég samþykki tillöguna eins og hún liggur fyrir. Ég mun gera það vegna þess að með þeirri niðurstöðu eru svo mikilsverð svæði sett í verndarflokk að allir sem láta sig náttúruvernd varða hljóta að fagna henni. Þar með er þó ekki verndarbaráttunni lokið, hún er rétt að byrja. Næsti áfangi hennar, að lokinni þessari umferð, hlýtur að felast í því að koma fleiri svæðum, sem nú eru í nýtingarflokki eða biðflokki, í verndarflokk og auka aðkomu almennings að ákvarðanatöku í náttúrunýtingu sem byggir á faglegum rannsóknum og viðurkenningu á hagsmunum þjóðarinnar allrar við nýtingu landsins umfram staðbundna sérhagsmuni, vegna þess að ég held að nýting þeirra svæða sem hér um ræðir eigi ekki að vera ákveðin af þeim sem búa í nágrenni þeirra. Þessi svæði; neðri hluti Þjórsár, Skjálfandafljót, Skrokkalda, Hágöngulón, koma landinu öllu við, þau eru hagsmunir allra landsmanna. Og án þess að ég sé með fastmótaða leið eða hugmynd um hvernig auka á lýðræðislega aðkomu að ákvörðununum finnst mér að það sé leiðin sem við ættum að fara vegna þess að mér finnst eins og þjóðin sé grænni en Alþingi.

Það er tilfinning mín að almenningur sé meira inni á þeirri línu að vernda og verndarnýta en að orkunýta. Það held ég að sé eðlilegt næsta skref í málinu. En það sem við fjöllum um hér er gott fyrsta skref.