141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:57]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kemst örugglega ekkert yfir að svara öllum spurningum hv. þingmanns en ég vil hnykkja á því sem ég sagði um árnar og því sem hv. þingmaður spurði mig þar um, vegna þess að Ísland er ekki eyland í þeim efnum. Ef við skoðum hvað er að gerast á heimsvísu er í Ameríku allri á hverju ári verið að endurheimta um 40 ár sem hafa verið stíflaðar á síðustu 60–70 árum þar. Af hverju er verið að gera það? Það er vegna þess að þær framleiða mjög litla raforku, eru með staðbundin orkuver, og hagsmunirnir af því að endurheimta farveginn, endurheimta lífríkið sem ánum fylgir eru meiri fyrir samfélögin sem byggja meðfram þeim en það að starfrækja orkuvinnslu.

Hvað er að gerast á syðsta hluta Síle? Það eru fjórar vatnsaflsvirkjanir í Patagóníu sem eiga að rísa á næsta ári sem eru gríðarlegt deiluefni þar. Á hverju ári ríða bændur þar til þings til þess að mótmæla. Þar eru fámenn svæði, gríðarlegir hagsmunir ferðaþjónustunnar, gríðarlegir hagsmunir ekki bara fyrir íbúa þar heldur fyrir heimsbyggðina alla. Hvað er að gerast í virkjanamálum á Indlandi? Hvað er að gerast í virkjanamálum við Amason og í Kína, þar sem heilu og hálfu borgirnar eru fluttar vegna virkjanaáforma.

Það er ekki hægt fyrir okkur að skoða þetta mál og einangra það við Ísland. Verðmæti ósnortinna svæða eru alltaf að verða meiri, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum. Við getum auðvitað bara hugsað um okkar hagsmuni í þessu og haft áhrif á það sem hér er að gerast. En eftir því sem við göngum lengra í verndarátt og aðrir ganga lengra í orkunýtingu, illu heilli, þeim mun verðmætari verða okkar svæði. Og það skiptir gríðarlegu máli fyrir okkur að halda í okkar vatnasvið, halda okkar ám eins og þær eru.