141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:05]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað eru virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár ólíkir innbyrðis. Þegar kemur að Urriðafossvirkjun er þar um að ræða gríðarlega vatnsmikinn og fallegan foss, eiginlega fossakerfi. Ég orða röksemd mína þannig að ég tími ekki að fara með svo fallegt svæði í virkjun, ég tími ekki að fórna þessu náttúrufyrirbrigði.

Svo þegar kemur að Holta- og Hvammsvirkjunum þá yrðu þær ekki á ósnortnum svæðum. Hins vegar er um að ræða svæði í byggð og menn eru að tala um það sem nefnt hefur verið rennslislón eða rennslisvirkjanir en samt sem áður umtalsverð lón og breytingu á landslaginu. Það er í sjálfu sér ekki alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þetta séu ekki ósnortin svæði vegna þess að í ánni sjálfri eru hólmar og eyjar með gróðri með hafa verið ósnert frá því að land byggðist. Umtalsverðar siglingar eru á ánni, fyrirtæki hafa verið með rekstur þarna og mjög gaman að fara þar um.

Það eru samverkandi þættir sem liggja til grundvallar skoðun minni. Það er Þjórsárdalurinn, landslagið allt og hvernig hann lítur út í dag. Það er laxagengd, fiskur í ánni, og samspil þess hvernig áin rennur til sjávar og framburðar hennar við til dæmis þorskgengd fyrir Suðurlandi. Afskipti af þessu vistkerfi hefur áhrif.

Spurningin er: Höfum við nægilega mikla þekkingu til að halda áfram og líður okkur nógu vel með það sem við vitum um áhrifin til þess að geta gert það? Svar mitt er nei.