141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[15:42]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski frekar segja að þetta sé meðsvar en andsvar. Mig langar til að nota tækifærið og lýsa stuttlega stuðningi við þessar viðbætur við lögin um rannsóknarnefndir sem voru gríðarlega mikil framför. Það voru engu að síður þrjú atriði sem hafa vafist fyrir þinginu og þeim sem hafa verið í þessari vinnu og hér er gerð tillaga um að bæta úr þeim.

Það er vissulega erfitt að áætla hversu langan tíma rannsóknirnar taka og því getur það verið bagalegt ef einstaklingur er búinn að fá launalaust leyfi í tiltekinn tíma, rannsóknin dregst á langinn og hann þarf ef til vill að velja á milli þess að halda rannsókninni áfram eða halda starfi sínu ef launalausa leyfið rennur út. 1. gr. er einmitt til þess fallin að tryggja að viðkomandi héraðsdómari hafi leyfi frá störfum meðan nefndin starfar.

Í öðru lagi varðar þetta kostnað við öflun gagna sem getur verið mikill við flókin mál. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði hér ágætlega grein fyrir því og loks láðist löggjafanum einfaldlega að setja inn ákvæði um skaðleysi nefndarmanna þegar lögin voru samþykkt í júní 2011, en slíkt ákvæði var auðvitað í lögunum um rannsóknarnefnd Alþingis.

Mig langar til að beina einni fyrirspurn til hv. framsögumanns málsins um 3. mgr. 1. gr. sem svo hljóðar:

„Verði nefndarmaður forfallaður eða ef hann getur ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu getur forsætisnefnd skipað annan mann til þess að taka sæti í nefndinni.“

Ég vek í þessu sambandi athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er það forseti Alþingis sem skipar menn í nefndina og samkvæmt 2. gr. er kveðið á um það hvernig þeir skuli valdir. (Forseti hringir.) Það er sem sagt í samráði við forsætisnefnd, en það er forseti sem skipar mönnum til verka.