141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[15:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir svarið. Mig langar til þess að bæta einu atriði í þessa umræðu og það er reynslan af þessum lögum. Hún er ekki orðin löng, þetta eru tæplega hálfs annars árs gömul lög, en nú eru starfandi tvær rannsóknarnefndir samkvæmt þeim og þingið hefur nýlega samþykkt að skipa þriðju nefndina með því fororði að hún taki til starfa þegar þeim tveimur rannsóknum sem nú standa yfir, á Íbúðalánasjóði og á sparisjóðunum, lýkur til þess að hægt sé að nýta sem best húsnæði og búnað sem búið er að fjárfesta í og þann mannafla sem fenginn hefur verið til starfa.

Það eru þrír annmarkar sem ég nefndi, þrjú atriði sem hafa vafist fyrir. Það eru tímamörkin, kostnaðurinn og skaðleysið sem hér er tekið á. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér sammála um að þegar þessum fyrstu tveimur rannsóknum lýkur, vonandi ekki allt of löngu eftir áramót, hvort þá sé ekki tími til kominn til þess að setjast yfir lögin með tilliti til þess hvernig þau hafa reynst í framkvæmd.