141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði.

[10:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði. Eins og fram hefur komið í umræðunni undanfarna daga er kominn upp uppgreiðsluvandi hjá Íbúðalánasjóði vegna þess að vaxtastigið í landinu hefur lækkað og lánasafn Íbúðalánasjóðs er uppgreiðanlegt, þ.e. lán sem sjóðurinn hefur veitt, en skuldbindingar hans eru það ekki. Þetta setur sjóðinn í töluvert þrönga stöðu.

Mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því til hvaða aðgerða hún telur raunhæft að grípa í ljósi þessa til að lágmarka áhættu almennings af lágri eiginfjárstöðu og þar með þröngri skuldastöðu Íbúðalánasjóðs.

Það sem er undirliggjandi hér er ríkisábyrgð vegna skuldbindinga sem geta, ef allt fer í óefni, verið yfir 200 milljörðum kr. Þetta gefur okkur tilefni til að taka á málinu strax, ræða það í þinginu og við stjórnvöld til hvaða aðgerða eigi að grípa til að lágmarka áhættu almennings af stöðunni.

Jafnframt kalla ég eftir því hjá hæstv. forsætisráðherra að hún segi okkur hvernig hún sjái þessi mál fyrir sér til framtíðar litið, hvort til dæmis sé skynsamlegt að reka Íbúðalánasjóð, lánastofnun með nánast ekkert eigið fé, eins og lög gera ráð fyrir, en með ríkisábyrgð. Ef við eigum að draga einhvern lærdóm af því sem gerst hefur undanfarin ár er það það að veiting fasteignalánanna er ekki áhættulaus starfsemi. Þess vegna hlýtur að orka mjög tvímælis að fara fram á afskaplega lágt eiginfjárhlutfall en veita um leið ríkisábyrgð fyrir slíkri starfsemi.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að ekki þurfi að taka ríkisábyrgðina og þetta fyrirkomulag (Forseti hringir.) til gagngerrar endurskoðunar til framtíðar litið.