141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði.

[10:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt að greina rót vandans og finna út hvernig við komumst í þessa stöðu, eins og hæstv. forsætisráðherra gerði. Ég tel reyndar að við eigum ekki að fara í miklar sakbendingar í því efni. Annars væri nærtækt fyrir mig að benda á að hæstv. forsætisráðherra gerði ekkert í málinu sem þáverandi félagsmálaráðherra eftir að ríkisstjórnarskiptin urðu 2007.

Mér finnst aðalatriðið að við tökum á vandanum eins og hann blasir við okkur núna út frá hagsmunum almennings. Ríkisábyrgð er til staðar og tölurnar eru sláandi háar, jafnvel yfir 200 milljarðar samkvæmt því sem fram hefur komið. Annars vegar er verkefnið að lágmarka áhættu almennings vegna stöðunnar og hins vegar hlýtur þessi staða að kalla á umræðu um það hvernig við eigum að halda á þessum málum til framtíðar. Ég sakna þess að ráðherrann skuli ekki tjá sig um það hvort yfir höfuð sé skynsamlegt að reka Íbúðalánasjóð í því formi sem gert hefur verið undanfarin ár með ríkisábyrgð en nánast ekkert (Forseti hringir.) eiginfjárframlag í ljósi þeirrar áhættu sem slíkri starfsemi getur fylgt. Þetta hlýtur að koma til umræðu (Forseti hringir.) í tilefni þessarar stöðu.