141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

siglingar Baldurs til Vestmannaeyja.

[10:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, þegar óhöpp verða þarf að grípa til ráðstafana. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns og fyrirspyrjanda þurfti að tryggja samgöngur við Vestmannaeyjar. Það er ekki valkostur að láta af þeim samgöngum, þær verður að tryggja með einum eða öðrum hætti. Þá er þetta það úrræði sem menn sjá helst, að fá Baldur til að fara þarna í skarðið á meðan Herjólfur er í slipp.

Hvað er þá til ráða gagnvart flutningum frá Vestfjörðum? Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, þetta kemur til dæmis illa við ferskfisksflutninga á Patreksfirði og annars staðar af þessu svæði. Ég var í sambandi við Vegagerðina um helgina og reyndar bæjarstjórnarmenn á svæðinu og fullvissaði þá um að allt yrði gert sem unnt væri til að tryggja samgöngur, þá um landveg. Það sem greinir Vestmannaeyjar frá öðrum landshlutum er að þar er ekkert hægt að flytja landveginn. Vegagerðin er að skoða þessi mál og hefur þau jafnan á sínu borði og að sjálfsögðu með það að leiðarljósi að tryggja sem best flutninga frá þessu svæði. Það er stöðugt á borði Vegagerðarinnar.

Þetta minnir okkur á hve mikilvægt það er að fá nýja ferju til Vestmannaeyja vegna þess að Herjólfur hentar ekki sem flutningaskip milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Við áttum ágætan samræðufund í gær við þingmenn Suðurkjördæmis (Forseti hringir.) og fulltrúa Vegagerðar og Siglingastofnunar þar sem farið var yfir öryggismál um Vestmannaeyjasiglingarnar (Forseti hringir.) en við stefnum að því að ný ferja verði komin í Vestmannaeyjasiglingar á árinu 2015.