141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

tollvernd landbúnaðarafurða í ESB-samningnum.

[10:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt atriði, kannski lítið atriði fyrir sumum. Fyrir nokkrum dögum lásum við það í fréttum að hluti af samningahópi um landbúnaðarmál varðandi aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu hefði gengið út af fundi eða hætt þátttöku á einhverjum fundi þar sem tillaga meirihlutahópsins virtist vera sú að samningsafstaðan ætti að vera þannig að ekki yrðu gerðar kröfur um að viðhalda þeim tollum sem við höfum haft á innflutningi á landbúnaðarafurðum.

Eftir því sem ég veit og hef séð í bréfi sem forveri núverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra sendi samningahópnum þá kom fram að hlutverk hópsins var meðal annars að tryggja þessa tollvernd, þ.e. að fagráðherrann gaf sem sagt þau skilaboð til þess hóps sem heyrir undir hann að það ætti að gæta þess að halda tollverndinni til haga.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi orðið breyting á þessu „mandati“, ef ég má sletta, frú forseti, þ.e. frá þessu bréfi, sem forverinn sendi samningahópnum og hvort breytingin sé sú að ráðuneytið hafi ákveðið að rétt væri að gefa eftir þessi tollamál. Ef svo er ekki, sem kann að sjálfsögðu að vera, þá spyr ég hvort ekki sé mikilvægt að ráðherra komi skýrum skilaboðum til samningahópsins um hvert það umboð er sem hann telur að samningahópurinn eigi að hafa þegar kemur að því að semja um tollamálin.