141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni um að það hefði farið betur á því að við hefðum haft þau mál tilbúin til umræðu við 2. umr. fjárlaga. Það var meðal annars í þeim tilgangi sem ég óskaði eftir því að umræðunni yrði frestað um viku þannig að okkur gæfist rýmri tími til að fjalla meðal annars um þau stóru mál sem hv. þingmaður nefndi.

Það tókst því miður ekki, eins og stefnt var að. Það náðist ekki að vinna þannig og því bíður það okkar 3. umr. Hins vegar hefði svo sannarlega farið miklu betur á því, og ég tek undir þau orð hv. þingmanns, að við værum að ræða um þau hér og draga þá upp miklu skarpari og skýrari mynd af málinu í heild sinni heldur en við þó erum að gera.