141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði að á átakatímum og niðurskurðartímum skerptust pólitískar línur og ég tek undir það með hv. þingmanni. Það er algjörlega kýrskýrt hver stefna og forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar hefur verið. Hún birtist mjög skýrt í fjárlagafrumvarpinu og í tillögum meiri hlutans. Þar er stóru málunum sópað undir teppið og þau geymd þar til síðar og það á að reyna að koma þeim hér í gegn, væntanlega í skjóli nætur. Það eru, eins og allir vita, málefni Íbúðalánasjóðs, bygging Landspítala og löggæslumálin eins og þau voru rædd hérna áðan.

Síðan eru það gæluverkefnin, kosningaloforðin. Þeim er úthlutað á grundvelli óinnheimtra tekna og fyrirvarinn sem gerður er er átakanlegur.

Með leyfi forseta:

„Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjármálafyrirtækja, er gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.“

Það stoppar ekki ríkisstjórnina í að henda út gæluverkefnum (Forseti hringir.) sem engin innstæða er fyrir og sneiða hjá því að taka á þeim raunverulega vanda sem fyrirfinnst í ríkiskerfinu.