141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég kemst alltaf í svo gott skap þegar félagi minn og vinur, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, reynir að verja gerðir núverandi ríkisstjórnar sem hefur verið á skilorði hjá honum í hartnær fjögur ár fyrir ýmis verk.

Vissulega er það rétt að sem betur fer hafa ýmis verkefni gengið eftir í þessu ágæta kjördæmi okkar, sem við getum verið sammála um að er kjördæmi tækifæranna, en það undanskilur það ekki að þegar maður horfir til þeirra verka sem eru fram undan þá sé ég þess ekki stað í því frumvarpi sem hér liggur fyrir að sú innviðauppbygging sem okkur er svo nauðsynleg, ekki eingöngu fyrir Þingeyinga eða Norðlendinga heldur landsmenn alla, sé í þeim talnagrunni sem fyrir okkur er lagður. Ég get vel ímyndað mér að hv. þingmaður hafi í ljósi stöðu sinnar sem varaformaður fjárlaganefndar fyllri upplýsingar um það en við stjórnarandstöðuþingmenn. Mér þykir vænt um að heyra ef við getum búist við því að við 3. umr. fjárlaga verði tryggðir fjármunir til þess að ein af forsendum þeirrar hagvaxtarspár sem menn vonast til að gangi eftir verði fullnustuð og komist á rétt ról í fjárlögum næsta árs með tillögu fyrir 3. umr. Ég fagna því heiftarlega, eins og góður vinur minn norður á Dalvík hefði orðað það. Það væri mjög gott ef það gæti gengið eftir.

Varðandi það sem menn gerðu í góðærinu þá var ýmislegt gott gert. Menn greiddu niður skuldir og byggðu upp innviði landsins svo skipti tugum milljarða á ári hverju. Ég ætla samt ekki að fara í neinn meting út af því hér við hv. þingmann en það sjá allir góðir menn að þá voru unnin ýmis stórvirki. Því miður glímum við (Forseti hringir.) við aðra hluti í dag.