141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:37]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta innlegg hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar. Auðvitað erum við að byggja upp samfélagið miðað við þau efni sem við höfum. Það verður ekki gert umfram þau efni sem við höfum. Á árunum fyrir hrun var iðulega farið fram úr fjárlögum svo tugum milljarða skipti. Það var til marks um lélega stjórn ríkisfjármála að fara ítrekað fram úr fjárlögum þó að menn hefðu að einhverju leyti getað greitt fyrir það sökum ofþenslu.

Ég tel að sú ríkisstjórn sem nú ríkir hafi reynt sitt ýtrasta til að koma til móts við þarfir sveitarfélaganna hringinn í kringum landið við að byggja upp innviði og halda uppi verktakaþjónustu í margvíslegum verkefnum. Það er ekki einasta hægt að staldra þar við vegi og jarðgöng og brýr heldur líka margar menntabyggingar, heilbrigðisbyggingar og svo mætti áfram telja. Þegar listinn er skoðaður, sem sýnir þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í við minnstu efni sem nokkur ríkisstjórn hefur búið við á undanförnum árum og áratugum, þá held ég að menn geti í krafti sanngirni verið nokkuð sáttir við það sem lagt hefur verið til í uppbyggingu samfélagsins.

Fyrst og síðast erum við að taka til eftir óráðsíu fyrri tíma, við erum að taka til eftir langvarandi ranga stjórnarstefnu sem gerði ráð fyrir því að allt frelsi væri öðrum megin reikningsins og völdin væru tekin af stjórnmálamönnum og færð yfir til viðskiptalífsins. Við erum enn að súpa seyðið af því en okkur hefur orðið mjög ágengt við að taka til í þessum efnum og þegar kemur að framkvæmdum þá held ég að við getum sagt að ríkið hafi staðið við sitt.