141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að núverandi ríkisstjórn er að reyna að gera sitt ýtrasta. Það er bara svo langt frá því að vera ásættanlegt að tæpast nokkur maður getur hælt því eða miklast af þeim verkum. Hið „ýtrasta“ hjá núverandi ríkisstjórn er einfaldlega með því lélegasta sem maður hefur augum barið og hefur þó ýmislegt borið fyrir.

Þegar rætt er um að fjármálastjórnin hafi verið svo léleg að menn hafi ítrekað farið fram úr fjárlögum fyrr á árum er það alveg rétt, hárrétt. Þrátt fyrir það voru við hver einustu fjárlög síðustu árin fyrir hrun tillögur frá stjórnarandstöðunni um aukin útgjöld á hinum ólíklegustu sviðum. Það var ekki ein einasta tillaga, jafnvel frá þingmönnum Vinstri grænna, um aðhald eða niðurskurð. Nei, allir voru í því hér á hv. Alþingi að gera tillögur um aukin útgjöld. Það var enginn undanskilinn í því, það sátu allir við þessa potta.

Munurinn á því sem þá var og nú er er sá að þá var reynt að stýra ríkisfjármálum út frá aðhaldsmarkmiðum, afkomumarkmiðum. Þegar hrunið verður taka menn upp annan hátt og reyna að stýra útgjöldum betur en áður. Það er gott. Því miður hefur það ekki gengið nægilega vel. Þetta snýst um fjármálastjórn og muninn á því við hvað er að glíma. Áður höfðu menn ekki áhyggjur af því, það var einfaldlega stanslaus vöxtur og allir reyndu að sitja við þá kjötkatla, sama hvar í flokki þeir stóðu. Þeir sem tala mest og hæst um hrunið og lélega fjármálastjórn í þeim efnum voru ekki bestu fulltrúar þess að gera kröfur um aukið aðhald.