141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að við höfum lagt of miklar álögur á atvinnulífið en við þurfum jafnframt að tryggja það, ef við ætlum að fara í skattalækkanir, að þær leiði til vaxtar, að þær leiði meðal annars til þess að fyrirtæki fari út í fjárfestingar eða fjölgi starfsfólki. Hugmynd Sjálfstæðisflokksins um lækkun tryggingagjalds er að mínu mati mjög góð, sérstaklega ef hún er bundin við það að fyrirtækin ráði inn fólk og fái lækkunina fyrst og fremst þess vegna.

Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af því að almenn skattalækkun leiði til þess að mismunurinn lendi inni í bankakerfinu er sú að skuldsett fólk reynir að greiða niður lán og fólk á Íslandi er yfirskuldsett og notar hvern viðbótareyri til að ná skuldsetningunni niður, en þeir sem eru ekki jafnskuldsettir og geta sparað leggja mögulega peninginn bara inn í banka. Þetta er þekkt vandamál í hagfræðinni í kreppu.

Mig langar líka að spyrja út í fleiri fullyrðingar sem komu fram í hvatningu hv. 1. minni hluta. Þar er talað um að meiri hlutinn eigi að endurskipuleggja ríkisreksturinn þannig að meiri þjónusta verði veitt fyrir minni pening. Ég vil biðja hv. þingmann að gefa mér dæmi um hvernig væri hægt að ná því fram. Ríkisstjórnin er líka hvött til þess að greiða niður skuldir og ég er sammála því að það hefði verið hægt að gera og hefði átt að gera strax eftir hrun með því að taka meðal annars upp tillögu frá Sjálfstæðisflokknum um að ríkið næði í skatttekjur af iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóð.