141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrir það fyrsta vil ég fá að leiðrétta hv. þingmann þegar hann segir í ræðu sinni að ekki hafi tekist að halda vinnuáætlun fjárlaganefndar. Það var samkomulag í fjárlaganefnd og sameiginleg ákvörðun hennar að fresta umræðunni um eina viku. Það var ekki svo að ekki væri hægt að standa við áætlunina, þetta var rætt í fjárlaganefnd á þeim nótum að rétt væri að fresta umræðunni í eina viku.

Það hefði ekki verið neitt mál að halda hana í síðustu viku ef menn hefðu viljað það. Það var ekki svo að áætlun stæðist ekki, heldur var þetta sameiginlega rætt manna á milli á fjárlaganefndarfundi þar sem þessi ákvörðun var tekin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans, skýra afstöðu hans til byggingar nýs Landspítala. Er hv. þingmaður andvígur byggingunni eða mundi hann styðja byggingu slíks sjúkrahúss ef tillaga um hana kæmi til dæmis við 3. umr. fjárlaga?

Hv. þingmaður ræddi mikið um hagvöxt sem er reyndar sá mesti í Evrópu á Íslandi, eins og kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í nóvember, 2,5–2,7%, en þriðjungur þess í öðrum löndum Evrópu og okkar samkeppnislöndum. Hagvöxturinn er drifinn áfram af samneyslu, af einkaneyslu og af fjárfestingum sem hafa verið miklar frá síðasta ári og munu aukast í ár og á næsta ári, eins og segir orðrétt í þjóðhagsspá Hagstofunnar.

Hv. þingmaður sagði að taka þyrfti til í stjórnsýslunni. Hér hefur verið sameinað og endurskipulagt í stjórnsýslunni, í ráðuneytum, í stofnunum, meira en dæmi eru um áður. Ég minnist þess ekki að hv. þingmaður hafi stutt slíkar breytingar.

Hv. þingmaður segir að í öðrum löndum tíðkist ekki að þingmenn leggi fram breytingartillögur við fjárlög sem sprengi þá þann ramma sem er fyrir hendi. Get ég tekið þetta sem loforð frá hv. þingmanni? Hann hefur verið öðrum þingmönnum gírugri í (Forseti hringir.) þeim efnum til þessa, a.m.k. á þessu kjörtímabili. Get ég tekið það loforð af hv. (Forseti hringir.) þingmanni að hann muni ekki leggja fram tillögur í þessum málum?