141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend við það sem ég sagði um vinnuáætlun þingsins. Því miður ber vinnan við fjárlagagerðina öll þess merki að það séu að koma kosningar. Við verðum einfaldlega að horfa til þess að komið hafa fram ýmsar breytingar sem ekki náðist að ræða fyrir 2. umr. Það er bara nákvæmlega eins og það er. Það er alveg rétt að það var ágæt samstaða um að fresta umræðunni en það var gert vegna þess að það lá fyrir að það þyrfti að fara yfir stór og mikil viðfangsefni sem ég veit að hv. formaður fjárlaganefndar er sammála mér um að hafa ekki náðst inn fyrir 2. umr.

Fyrst að hv. þingmaður nefnir Landspítala – háskólasjúkrahús, þá er það einmitt eitt af þessum verkefnum sem á að koma inn fyrir 3. umr. og ég hef alltaf lýst því yfir að ég er andvígur því fyrirkomulagi að ráðast í nýframkvæmdir við þessa miklu byggingu, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, án þess að vita nákvæmlega hver áhrifin af byggingunni verða á heilbrigðiskerfið annars vegar og hins vegar á fjárhag ríkisins. Ég hef ekki verið reiðubúinn að samþykkja að það verði hægt að spara 3 milljarða á ári með því að byggja þetta risastóra sjúkrahús. Ég kalla eftir auknum gögnum.

Ég get ekki svarað betur varðandi hagvöxtinn og stjórnsýsluna vegna þess að tími minn er að renna út, en ég bendi á að til þess að búa til raunverulegan hagvöxt þá þýðir ekki að heimila almenningi í landinu endalaust að taka út séreignarsparnað sinn og halda uppi einkaneyslu. (Forseti hringir.) Það þarf að skapa atvinnu. Atvinnu, til þess að geta svo byggt (Forseti hringir.) upp velferðarkerfið á ný.