141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki tregðu stjórnarandstæðinga við að viðurkenna það sem alls staðar blasir við, að hagvöxtur á Íslandi er sá mesti í Evrópu. Það er bara ekki rétti hagvöxturinn. Það þarf öðruvísi hagvöxt. Eitthvað aðeins öðruvísi heldur en hann er, þó hann sé hvergi meiri en hér.

Markmiðin voru ekki háleit, sagði hv. þingmaður í upphafi kjörtímabils, það var að bjarga Íslandi frá gjaldþroti. 600 milljónir á dag, var hallarekstur ríkisins vorið 2009. 600 milljónir á dag. Á hverjum einasta andskotans degi ársins (Forseti hringir.) og ætla menn að halda því fram að það hafi ekki náðst neinn árangur í því?

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að gæta orða sinna í ræðustól.)

Hann skal reyna það, virðulegi forseti.

Auðvitað voru markmiðin háleit og markmiðin hafa náðst. Hv. þingmaður hæðist að því að það hafi þurft að fresta hér markmiðum um eitt ár. Hvers vegna? Vegna þess að þörfin var ekki eins mikil og gert var ráð fyrir. Vegna þess að það gekk betur en gert var ráð fyrir og vegna þess að það voru gerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Var hv. þingmaður andsnúinn því? Hefði (Forseti hringir.) hann lagst gegn kjarasamningum? Hefði hann komið í veg fyrir að þeir (Forseti hringir.) hefðu verið knúðir fram ef hann hefði haft til þess völd?