141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Að mínu áliti er það sem stefnt var að í grunninn gott. Ég held hins vegar, og deili skoðun með hv. þingmanni í þeim efnum, að það sé nauðsynlegt að þetta verði endurmetið einfaldlega af þeirri ástæðu að mér sýnist þetta koma út með svipuðum hætti og ef lambslæri væri hent inn í stóran hundahóp og sá sterkasti og frekasti tæki lærið og hlypi með það til fjalls. Við sjáum staðfestingu þess í meðferð á þeim fjármunum sem úthlutað er til sóknaráætlunar landshlutans, 400 millj. til útdeilingar, þar sem stærsti hlutar þeirrar fjárhæðar lendir inni á höfuðborgarsvæðinu. Ég hefði þá viljað spyrja hv. þingmann að því hvort hann teldi ekki, og deildi ekki með mér skoðunum í því efni, að okkur bæri og (Forseti hringir.) væri nauðsyn á því að taka þetta til endurskoðunar í fjárlaganefnd.