141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem ég gat ekki skilið öðruvísi en að við værum alveg sammála um að það sé mjög mikilvægt og nauðsynlegt að setja reglur um útgjaldaramma ríkisins. Það skiptir í raun og veru engu hverjir eru í stjórn á hverjum tíma. Það er bara settur ákveðinn rammi sem menn þurfa að fylgja eftir og inn í hann þarf að raða.

Ég tel það mjög mikilvægt og það endurspeglast hér í þessum fjárlögum hversu mikilvægt það er. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort það væri þá ekki skynsamlegt, eftir setu hans á þingi þennan tíma, að setja líka ákveðnar reglur um vinnubrögð. Nú þekki ég það vel úr sveitarstjórnum að gögn um þau mál sem eru á dagskrá, til dæmis bæjarstjórnarfunda, verða að hafa borist tveimur sólarhringum áður en fundur hefst. Annars má ekki fjalla um þau nema með því að leita sérstakra afbrigða, þá er nóg að einn fulltrúi af kannski ellefu neiti því. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti verið sammála mér í því að við þurfum að þróa þetta í þá átt að gögn séu til dæmis ekki kynnt og tekin út eftir (Forseti hringir.) örfáar mínútur um kannski tugi milljarða breytinga í fjárlögum ríkisins.