141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um fjárlög íslenska ríkisins árið 2013. Þegar þessum fjárlögum er flett og viðbótartillögur skoðaðar getur maður verið bjartsýnn. Aga hefur verið beitt við fjárlagagerðina á undanliðnum árum og árangurinn er að skila sér. Að mati þess sem hér stendur er hann að skila sér með glæsilegum hætti. Það var tekið á vandanum strax í byrjun með afgerandi hætti án hiks og niðurstaðan skilar sér í því að við erum að ná heildarjöfnuði á örfáum árum.

Niðurskurðinum er lokið, herra forseti, stjórnvöld þurfa ekki að skera frekar niður, og það er vel, þar á meðal í viðkvæmustu greinum og málaflokkum sem ríkið heldur úti. Viðspyrnan er hafin. Það er vel. Ástæða þess að viðspyrnan er að hefjast er einmitt sú að það var gengið hratt og vel og skipulega til verks. Við eigum, getum og verðum að vera nokkuð stolt af þeim fjárlögum sem nú blasa við. Þótt efalítið megi gagnrýna einhverja liði eins og gengur og gerist með alla fjárlagagerð og reyndar öll mannanna verk geta menn varla verið annað en sammála um að árangurinn sé að skila sér og viðspyrnan sé hafin. Menn eiga að geta glaðst sameiginlega yfir því að niðurskurðartímabilinu eftir ein erfiðustu ár í íslensku samfélagi er lokið.

Horfum aðeins um öxl. Við getum lært mikið af fortíðinni. Við eigum ekki endalaust að dvelja í henni en við eigum að læra af henni. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd tók við gríðarlega erfiðum verkefnum, sennilega einhverjum þeim erfiðustu sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið í veganesti við upphaf valdatöku sinnar en hún hefur að mati þess sem hér stendur leyst þau vel af hendi.

216 milljarða kr. halli blasti við stjórninni við upphaf valdatökunnar, 600 millj. kr. halli á hverjum einasta degi sem ætti að vera ofviða mörgum stjórnvöldum en reyndist það ekki í þessu tilviki. Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar var strax farið í heildstæðar aðgerðir. Það þurfti að afla nýrra tekna, það hlýtur að vera óumdeilt. Það þurfti að hagræða og skera niður, það hlýtur jafnframt að vera óumdeilt. Menn hafa úr þessum ræðustól nefnt að breikka hefði mátt skattstofna, það hefði ekki þurft að skera svona mikið niður, það hefði ekki þurft að afla svona mikilla tekna. Ég er því algerlega ósammála, ég held því fram að þeir sem segja að einungis hefði þurft að breikka skattstofna, gefa í, hafi farið fram með lýðskrumi. Fjögur af hverjum fimm fyrirtækjum á Íslandi voru svo löskuð eftir oflánastefnuna og eftir að vald Alþingis var fært út til viðskiptalífsins að þau áttu enga möguleika á að taka þátt í að breikka skattstofna fyrstu árin eftir hrun. Þau voru löskuð eftir einhverja ömurlegustu tilraun sem gerð hefur verið á samfélaginu, þ.e. þegar frjálshyggjan fékk öll völd.

Þess vegna varð að afla nýrra tekna, þess vegna varð að hagræða í ríkisrekstrinum sem hafði þanist verulega út á árunum fyrir hrun eins og þar væri af endalausum efnum að taka. Menn héldu nefnilega fyrir hrun að þeir gætu endalaust lifað um efni fram. En þessi fjárlög, eins og þau sem komu þar á undan, sýna að við lifum best með því að lifa í samræmi við efni. Ég held að allir sem skoði það af einhverri sanngirni hljóti að sjá að það varð að fara þá leið sem stjórnvöld fóru í, með mikilli hagræðingu og öflun nýrra tekna. Hin leiðin var aldrei fær, hin leiðin var ekkert annað en lýðskrum.

Herra forseti. Ég er hins vegar afskaplega stoltur af því hvaða leið var farin út úr hruninu þegar fjárlagagerðin er annars vegar. Hér var farin leið jöfnuðar. Hér var farin leið nýs og afgerandi aga í fjármálum og fjárlagagerð og hér var farin að mörgu leyti leið samstöðu eins og lýsir sér í ágætri eindrægni allrar fjárlaganefndar sem viðhafði ný vinnubrögð við fjárlagagerð, með eftirfylgni og eftirliti og tókst á margan hátt að vinna mjög vel saman við að endurreisa fjárhag ríkisins. Það er vel og það ber að þakka fyrir það góða samstarf, þann einhug sem lengst af, ef ekki allan tímann, hefur ríkt í hv. fjárlaganefnd. Við þurftum á þessu samstarfi að halda, þessari samvinnu og þessum einhug. Fyrir það þakka ég enn og aftur.

Leið jöfnuðar var ekki sjálfgefin. Aðrar þjóðir í kringum okkur hafa ekki endilega valið leið jöfnuðar út úr hruninu. Ég get nefnt Íra sem dæmi sem hafa hlutfallslega lagt miklu meiri álögur á efnaminna fólk út úr sínu hruni en varið að mörgu leyti þá sem eru efnamestir. Þannig hafa verið lagðar tvöfalt meiri byrðar á efnaminnstu hluta írsku þjóðarinnar miðað við það sem gengur og gerist með þá sem eru efnamestir. Við í stjórnarmeirihlutanum lögðum til aðra leið. Okkur fannst sanngjarnt, a.m.k. sanngjarnara, að leggja meira á þá efnameiri og sem allra minnst á þá efnaminnstu. Reyndar komum við þeim í skjól með því að draga hreinlega úr skattheimtu þegar kemur að efnaminnsta fólkinu eins og rannsóknir sýna.

Þessi leið jöfnuðar út úr hruninu hefur reynst farsæl og sömuleiðis sú sem farin var, að reyna framar öllu að verja störf. Illu heilli þurfti að segja upp einhverjum hluta starfsfólks víða um land sem vinnur hjá ríkinu, en það hefur verið í lágmarki og það hefði eflaust verið freistandi að sækja meir inn í starfsmannamálin. Það var hins vegar látið vera af þeim augljósu ástæðum að það ber að reyna að verja störfin við þessar aðstæður.

Fjárlögin sem nú blasa við okkur sýna að það er tækifæri til viðspyrnu. Niðurskurðinum er lokið. Heildartekjurnar nema 579,6 milljörðum en heildarútgjöldin um 580,9 milljörðum. Við sjáum að upphaflegi hallinn sem var 2,8 milljarðar er kominn niður í 1,3 milljarða þannig að hallinn er að lækka miðað við þær tillögur sem nú liggja fyrir við breytingar á fram komnu fjárlagafrumvarpi. Það er vel, enda þótt við blasi að 3. umr. fjárlaga sé eftir og ef til vill þarf að taka tillit til einhverra óska í viðbót. Þær verða vitaskuld teknar fyrir í hv. fjárlaganefnd og skoðaðar í þaula, en sá sem hér stendur telur að tekið hafi verið tillit til margra helstu þáttanna.

Það er rík krafa um umframeyðslu nú um stundir í samfélaginu. Það er rík krafa um að eyða um efni fram og hv. fjárlaganefnd hefur þurft að vera á bremsunni. Við ætlum ekki aftur að eyða um efni fram. Við ætlum að eyða í samræmi við efni. Ég tel að það fjárlagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar hjá hinu háa Alþingi sé til vitnis um að við erum að reyna að færa aga inn í fjárlögin, við erum að fara frá tíma agaleysis þegar kemur að ríkisfjármálum og reyna að eyða í samræmi við efni.

Auðvitað er freistandi að verða við margs konar hugmyndum um eyðslu. Auðvitað er freistandi að gjalda jáyrði við óskum margra viðkvæmra félagasamtaka sem biðja um meira fé og telja að illa hafi verið skorið niður í rekstri sínum á undanförnum árum. Auðvitað væri mjög æskilegt að geta hækkað laun, ég nefni laun margra kvennastétta hjá ríkinu. Auðvitað er freistandi að fara í enn meiri framkvæmdir en hér er lagt til. Það er margt freistandi við fjárlagagerðina, en það verður að standast margar þessar freistingar því að þó að viðspyrna sé hafin og niðurskurðinum lokið er engin ástæða til að fara að eyða aftur um efni fram, það er nær að eyða í samræmi við efni.

Eins og ég gat um er gert ráð fyrir því að hallinn á fjárlögum verði 1,3 milljarðar samkvæmt fyrirliggjandi viðbótartillögum við fjárlagafrumvarpið. Hann var áður 2,8 milljarðar. Hallinn hefur verið meginvandi fjárlagagerðarinnar. Eins og fram hefur komið eru vaxtagjöld ríkissjóðs þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaganna og hefur verið á undanliðnum árum. Vaxtagjöld ríkissjóðs eru núna rösklega 80 milljarðar kr. Þetta hefur vitaskuld verið eitt af meginverkefnum fjárlagagerðarinnar því að þessum peningum er ekki varið í velferð, þeim er einfaldlega varið í að borga umframeyðslu síðustu ára sem leiddi til efnahagshruns og síðan gengishruns í kjölfarið.

Hvað felur þetta fjárlagafrumvarp í sér? Að uppistöðu til erum við að koma til móts við barnafjölskyldur, svo dæmi sé tekið, en í viðbótartillögunum komum við líka til móts við kröfu um frekari fjárfestingar í samfélaginu. Fjárfestingaráætlunin sem samkvæmt viðbótartillögunum nemur rösklega 5,6 milljörðum kr. er gott dæmi um það og sést hér í tillögum. Hér eru einar 245 viðbótartillögur og fylgja 2. umr. fjárlaganna. Um 10% af þeim tillögum lúta að fjárfestingaráætluninni og hún mun hjálpa til við uppbyggingu atvinnulífs, við innviðagerð, mjög víða um land. Auk þess er í henni lögð áhersla á nýjar og skapandi greinar og að víkka atvinnusvið landsmanna sem ég tel mjög mikilsvert. Íslendingar hafa einhverra hluta vegna dvalið um of við einhæfni atvinnulífs og í þessum fjárlögum er gert ráð fyrir því að við reynum að víkka atvinnusviðið, sækja inn á og sækja fram á fleiri sviðum en gert hefur verið.

Eins og flestir vita sem hér sitja og á hlusta hefur atvinnulíf Íslendinga á mörgum stöðum á landinu verið allt of einhæft. Það hefur verið megingalli á samfélagsgerð Íslendinga hversu mikil einhæfnin hefur verið mikil og viðvarandi í atvinnulífinu á mörgum stöðum hringinn í kringum landið. Þess vegna ber að leggja áherslu á að víkka atvinnusviðið fremur en að þrengja það og það er einmitt verið að gera með þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar vegna fjárlaga ársins 2013, þ.e. að víkka atvinnusvæðið, fara inn á svið sem augljóslega taka á móti meginhluta þeirrar fjölgunar, þeirra 1.600 manna sem árlega koma nýir inn á markaðinn. Við verðum að taka tillit til þess hóps í fjárlagagerð vegna þess að fjölgunin kemur ekki við sögu í gömlu greinunum. Við þekkjum það að í sjávarútvegi hefur á undanliðnum árum eðlilega orðið fækkun vegna tækniframfara. Hið sama á við um landbúnaðinn, þar hefur orðið tiltölulega mikil fækkun, reyndar mjög mikil, t.d. 40% fækkun kúabúa bara á Austurlandi á undanliðnum fimm árum svo dæmi sé tekið. Sakir tækniframfara verður ekki fjölgun í þessum gömlu greinum sem eru að fækka fólki. Fjölgunin verður ekkert endilega í hinni opinberu þjónustu á komandi árum þó að þar hafi orðið mikil fjölgun á undanliðnum árum. Það er ekkert sjálfgefið að hún verði þar. Þess vegna þurfum við að horfa meira á hin skapandi svið. Ég nefni kvikmyndagerð, ég nefni alls kyns forritun á margvíslegum sviðum sem hafa leitt af sér þróttmikil og áhugaverð fyrirtæki á undanliðnum árum og kallað til sín fjölda fólks með mikla menntun.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að þar er ekki einu framfarasóknina að finna í íslensku atvinnulífi. Við þurfum jafnframt að nýta okkar grænu orku vel inn í framtíðina, við þurfum að huga að fjölbreyttum iðnaði sem andlagi þeirrar orku sem er að finna í iðrum jarðar og árfarvegum. Þar eigum við líka að sækja fram af miklum metnaði þegar að fjölbreytni kemur því að dæmin sanna að það er óheppilegt að setja öll eggin í sömu körfu. Því er ákaflega gleðilegt að sjá núna nýjustu hugmyndir um sókn okkar í atvinnumálum, t.d. á Þingeyjarsvæðinu þar sem menn horfa til fjölþætts iðnaðar í stað þess að setja eggin enn og aftur í sömu góðu, þröngu körfuna.

Fjárfestingaráætlunin er meðal meginatriða þeirra tillagna sem liggja fyrir við 2. umr. fjárlaga. Það er hægt að fara vel og rækilega ofan í þær tillögur sem þar koma fram, en ég tel að þær hugmyndir sem þar eru settar á blað séu allar mjög áhugaverðar og geti fjölgað störfum hér á landi að mun, aukið og víkkað atvinnusviðið og gert íslenskt atvinnulíf á margan hátt áhugaverðara en verið hefur. Við erum í samkeppni þegar kemur að unga fólkinu okkar hvað áhugaverða vinnustaði varðar. Unga fólkið horfir á allan heiminn sem sitt heimili og þeir sem áður fluttu úr sveitum á mölina eru núna í borginni og eru farnir að hugsa sér til hreyfings um alla Evrópu og lengra og horfa einfaldlega á þau störf sem eru áhugaverðust á hverjum tíma. Ef Ísland getur ekki boðið upp á breitt svið af áhugaverðum störfum mun það smám saman skreppa saman. Þess vegna er þetta upplegg í tillögum til 2. umr. fjárlaga mjög metnaðarfullt og heppilegt að mati þess sem hér stendur því að við þurfum á þessum nýju störfum að halda.

Eins og ég gat um er fjárfestingaráætlunin að andvirði rösklega 5,6 milljarðar kr. Beinar tillögur frá ríkisstjórninni sem er að finna í þessum tillögum eru um 2,2 milljarðar. Í þriðja lagi er um að ræða tillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar upp á 519 millj. kr. Samtals gerir þetta um 7,8 milljarða kr. í aukaútgjöld.

Á móti koma hins vegar tekjur. Þar er áhugavert að horfa til farinna leiða. Við erum að veita nýásett veiðigjald í innviðagerð víða um land. Það er vel, það er skýr skoðun þess sem hér stendur að veiðigjaldinu eigi einmitt að verja að stórum hluta til þeirra svæða sem veita frumlagið í þeim efnum, auk þess sem það á náttúrlega með einhverjum hætti að fara til allrar þjóðarinnar, enda er um þjóðarauðlindina að ræða. Veiðigjaldinu er beitt einmitt með þeim hætti í fjárfestingaráætlunina sem mun bæta innviði, m.a. úti á landi og í atvinnusköpun á öllu landinu.

Við mætum jafnframt þessum aukaútgjöldum með arðgreiðslum úr fyrirtækjum í eigu ríkisins, þar á meðal úr Landsbanka Íslands sem ríkið á rösklega 80% í, 81,3% ef ég man rétt. Arðurinn úr Landsbankanum ásamt sölunni nemur 9,6 milljörðum kr. og arður frá Seðlabanka Íslands nemur um 2,6 milljörðum kr., ef ég man rétt, og aukinheldur erum við að taka arð út úr Landsvirkjun sem nemur 700 millj. kr., Rarik 310 millj. kr., ÁTVR um 200 millj. kr. og Orkubúi Vestfjarða um 60 millj. kr.

Ég vek hins vegar sérstaka athygli á því að það er ekki eins og þetta hafi verið ástundað í ríkum mæli. Það var gert þriggja ára hlé á útgreiðslu arðs úr Landsvirkjun til þess að hún gæti mætt þeim áföllum sem það góða og mikla fyrirtæki varð fyrir í kjölfar hrunsins þannig að fyrst núna er verið að taka arð út úr því fyrirtæki. Aukinheldur hefur ekki áður verið tekinn arður út úr Landsbankanum til ríkisins, en samtals nema þessar sölur á hluta úr ríkisfyrirtækjum og arðgreiðslur um 13,5 milljörðum kr. sem koma til móts við þau aukaútgjöld sem ég nefndi áðan.

Menn geta eflaust, hafa og mega mín vegna gagnrýna þessar arðgreiðslur og sölu á hluta úr þessum fyrirtækjum, þar á meðal úr Landsbankanum. Sá sem hér stendur er á þeirri skoðun að ríkið eigi að eiga ráðandi hlut og ríflega það í Landsbankanum um ókomin ár. Reynslan kennir okkur að við eigum að eiga að minnsta kosti eina bankastofnun hér á landi sem er að einhverju leyti í eigu ríkisins fremur en að veita þetta allt yfir til einstaklinga og hins frjálsa viðskiptalífs. Það þarf að vera burðarstoð í þessum efnum sem menn geta ekki leikið sér með að eigin vild, heldur þarf að haga málum með þeim hætti að ríkið eigi að minnsta kosti gildan hlut í einum banka. Ég vona að svo verði um ókomin ár.

Ber að líta svo á að það sé hættulegt að taka arð út úr þessu fyrirtæki og öðrum? Hv. fjárlaganefnd skoðaði þetta mál rækilega. Það er einmitt hlutverk hennar að gæta að því hvort arðgreiðslur geti reynst þessum fyrirtækjum og stofnunum skeinuhættar. Bankasýsla ríkisins tjáði sig afdráttarlaust um þetta efni og taldi að arðgreiðslurnar út úr til að mynda Landsbankanum væru innan skynsemismarka og gaf grænt ljós á þessa aðferð. Söluhlutinn var minnkaður en arðgreiðsluhlutinn stækkaður og fulltrúar Landsbankans sjálfs töldu þá leið eðlilega og skynsamlega. Rétt er að endurtaka að Bankasýsla ríkisins var sammála því mati. Þessi leið var skoðuð með fulltingi sérfræðinga úr bankanum sjálfum og hjá Bankasýslu ríkisins og grænt ljós gefið á þessa leið. Þetta atriði var vel skoðað og farið yfir það og þess vegna tel ég og fleiri hv. meðlimir fjárlaganefndar þessa leið raunhæfa og að hún geti sannarlega mætt þeim aukaútgjöldum sem lögð eru til í fjárlagafrumvarpinu.

Við hefðum ekki getað farið þá leið að auka útgjöld enn frekar nema við hefðum til þess fjármuni sem sannarlega kæmu á móti gjöldunum. Eins og ég gat um eru sérfræðingar sammála um að sú leið sem hér er farin sé innan skynsemismarka og fyllilega raunhæf og verði ekki viðkomandi fyrirtækjum að neinu leyti til tjóns. Það er vel.

Herra forseti. Ég hlýt að fagna því sérstaklega að þessar tillögur við 2. umr. fjárlaga komi til móts við, getum við sagt, nokkur þau helstu neyðaróp sem hafa verið utan dyra Alþingis á undanliðnum vikum og mánuðum. Það ber að hlusta á þau óp. Það ber að hlusta á þá neyð, hún er víða. Við gjöldum enn fyrir efnahagshrunið. Það mun taka okkur mörg ár að ná aftur endum saman, en árangurinn er engu að síður að skila sér. Mörg félagasamtök og margar stofnanir hafa þurft að glíma við mikinn niðurskurð og ríkt aðhald, m.a. í launum og framlögum til mjög mikilsverðra og viðkvæmra málaflokka. Þar hef ég nefnt sérstaklega fjögur atriði sem þarf að koma til móts við í meira mæli en gert er í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á nýliðnu hausti. Ég hef nefnt þar sérstaklega geðheilbrigðismálin, ekki síst geðheilbrigðismál ungmenna. Þar er um lífshættulega hluti að ræða. Við þurfum að heyra og nema þau neyðarköll sem berast úr þeim hópi. Það er tekið á þessum málum.

Við veitum meiri fjármuni til sálgæsluverkefna, t.d. á Suðurnesjum þar sem er að finna brýn og lífsnauðsynleg verkefni af þessu tagi. Eins og menn þekkja hafa Suðurnesin orðið illilega fyrir barðinu á atvinnuleysi og öðrum þáttum sem urðu til vegna efnahagshrunsins. Neyðarópið þaðan er sterkt og skýrt og þess vegna eru meiri fjármunir veittir til þessara aðila. Hér eru líka veittir meiri fjármunir til geðheilbrigðisþjónustu á Akureyri svo dæmi sé tekið og til ADHD-samtakanna sem hafa lagt ríka áherslu á að komið sé til móts við þann hóp fólks og áfram mætti telja.

Í annan stað vil ég nefna að ég er sérlega stoltur af því að bæði í fjáraukalögum og fjárlagafrumvarpinu er komið til móts við neyðaróp innan úr sjúkrahúsunum, þá sérstaklega frá Landspítalanum og FSA, sjúkrahúsinu á Akureyri, sem eru tvær helstu endastöðvarnar þegar kemur er heilbrigðisþjónustu. Það er tekið af röggsemi á þeirri beiðni sem nemur hundruðum milljóna króna, bæði í fjáraukalögunum og fjárlögunum. Samtöl mín við innanbúðarfólk, bæði á Landspítalanum og FSA, sýna að þær fjárheimildir sem eru að verða að veruleika munu lyfta grettistaki í tækjamálum á báðum þessum mikilvægu sjúkrahúsum, þeim tveimur sem ríkið heldur hvað mest úti og eru sannarlega einu hátæknisjúkrahúsin á Íslandi.

Ég vil líka nefna í þriðja lagi að hér er komið mun betur til móts við framhaldsskólana en verið hefur. Það skal fúslega viðurkennt hér og nú að aðhaldskrafan til framhaldsskólanna var orðin of mikil. Auðvitað þurftu allir að taka á sig meiri byrðar en líklega voru framhaldsskólarnir orðnir of illa skornir niður í fjárheimildum. Við þekkjum dæmi þess víða utan af landi að varla var hægt að halda úti eðlilegustu greinum eins og íslensku og stærðfræði, þá náðu endar ekki saman. Gripið var til aðgerða til að mæta fámennustu skólunum, ég nefni Framhaldsskólann á Húsavík sem fékk nýjan samning um ákveðið gólf í fjárframlögum þannig að það hefur verið tekið á ýmsum vanda í framhaldsskólakerfinu á undanliðnum árum þrátt fyrir aðhaldskröfur. Nú sér þess stað í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og ríkisstjórnar, þar er lagt til að gefa enn frekar í á þessu sviði og lagðar til um 300 millj. kr. til að mæta helstu kröfunum í framhaldsskólakerfinu. Við þurfum að hlúa betur að menntun. Við þurfum að hlúa betur að heilbrigðismálum og það er unnið að því.

Í fjórða lagi vil ég nefna að ég hef verið talsmaður þess að koma betur til móts við löggæsluna í landinu sem ég tel hluta af velferðarþjónustunni, reyndar einn veigamesta og mikilvægasta hluta velferðarþjónustunnar til að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu á tímum þegar ofbeldi hefur farið vaxandi, á tímum þegar skipulögð glæpastarfsemi hefur verið að festa rætur hér á landi, á tímum þegar innflutningur alls kyns fíkniefna, þar á meðal mjög harðra, hefur farið vaxandi og á tímum þegar lögreglan sjálf hefur þurft að glíma við meira ofbeldi og hótanir í eigin garð. Þess vegna tel ég að koma þurfi betur til móts við þennan hóp opinberra starfsmanna og vil þar sérstaklega nefna að löggæsla í víðfeðmustu svæðunum er svo að segja horfin. Það er miður því að það er mjög mikilvægt að haldið sé uppi eðlilegri löggæslu og eftirliti á vegum úti.

Engu að síður hefur verið komið til móts við til dæmis lögregluna á Suðurnesjum og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, herra forseti, til að mæta þessum auknu verkefnum. Það er vel.

Ég nefni sérstaklega, herra forseti, þessa fjóra þætti sem mér finnst kalla á aðgerðir og aukaheimildir og það er gert í þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar um fjárlög ársins 2013. Það er vel. Það er mjög mikilvægt að þingmenn hlusti á raddir þjóðarinnar, það er mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd hlusti og tali við þá sem til hennar leita. Það hefur verið reynt af fremsta megni. Ég nefni sem dæmi Íþróttasamband Íslands, ÍSÍ, sem oftsinnis kom að máli við hv. fjárlaganefnd, gott ef ekki alla nefndarmenn. Við getum ekki komið til móts við allar þeirra kröfur, það stóð aldrei til og það var aldrei hægt, ekki frekar en hægt var að koma til móts við kröfur svo margra annarra. Íþróttahreyfingin heldur uppi miklu og góðu starfi, þar á meðal forvarnastarfi, og það er mikilvægt að allir landsmenn geti tekið þátt í því. Þess vegna vil ég sérstaklega nefna að hér er hlutur Ferðasjóðs ÍSÍ lagaður sem nemur 17,6 milljónum, ef ég man rétt. Þá vil ég geta þess að Afrekssjóður ÍSÍ er einnig bættur að nokkrum hlut. Þetta er viðleitni til að gera betur, en ég ítreka að það er ekki hægt að koma til móts við óskir allra og svo verður um komandi ár. Við getum ekki varið endalausum fjárhæðum til allra hópa í samfélaginu. Við munum áfram þurfa að forgangsraða, ekki bara á næsta ári, heldur þarnæsta og árunum 2015, 2016, 2017 og 2018. Það tekur okkur dágóðan tíma að koma okkur út úr þeim ógöngum sem við lentum í fyrir fjórum árum.

Ég vil líka sérstaklega nefna eitt dæmi um litla ósk sem barst hv. fjárlaganefnd frá hinu ágæta félagi KFUM & K. Það fór ekki fram á mikið, vissi sem var að aðhald yrði áfram í fjárlagagerð á Íslandi en bað náðarsamlegast um að starfi við sumarbúðir í Vatnaskógi fyrir börn með hegðunarvandamál, ADHD-börn og fleiri yrði þyrmt og það er hér gert. Ég er mjög stoltur af því. Ég er mjög stoltur af því að geta numið mörg þau neyðarópa sem berast úr samfélaginu og þó að erfitt sé að velja á milli margra verkefna ber að hlusta betur á sumar raddir en aðrar. Þess vegna er ég sérlega stoltur af því að hv. fjárlaganefnd hafi lagt til að þessu starfi yrði þyrmt og það fengi að halda áfram með stuðningi úr ríkissjóði.

Herra forseti. Það fjárlagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar mun vonandi standast tímans tönn, en auðvitað er óvissa töluverð. Það er ekkert víst í þessum heimi og veikleikar hljóta að vera á þessu fjárlagafrumvarpi eins og öllum öðrum. Þar hljótum við að staldra við vextina, þeir þurfa lítið að breytast til að fjárlagafrumvarpið verði að veruleika innan þess ramma sem það gerir ráð fyrir. Hækkun vaxta á innlendum markaði getur haft sín áhrif. Aukin útgjaldakrafa getur líka haft sín áhrif. Hér hefur verið nefndur Landspítali – háskólasjúkrahús og krafan um að reisa hann. Hér hefur verið nefndur Íbúðalánasjóður sem þarf illu heilli, vegna herfilegra pólitískra mistaka frá árinu 2004, svo að segja að endurreisa og leggja til eina 33 milljarða kr. svo hann komist í 5% eiginfjárhlut. Hér eru reyndar lagðir til um 13 milljarðar kr. vegna næsta árs sem kallar á sennilega 500–600 millj. kr. vaxtagjöld þegar á næsta ári. Auðvitað er óvissa í þessu dæmi og ekkert öruggt í heimi hér, eins og ég gat um áðan. Vafalaust koma fleiri útgjaldakröfur er varða margar stofnanir. Ég nefni Landhelgisgæslu Íslands og þjóðkirkjuna, áður hafði ég nefnt löggæsluna, Hólaskóla norður í landi og Bifröst að ógleymdri Hörpu sem enn þarf sitt í hítina, 700 milljónir á síðasta ári og ef til vill um 150 milljónir á þessu ári. Þar var farið af stað án þess að menn reiknuðu dæmið til enda.

Útgjaldakrafan við 3. umr. verður efalítið þung og mikil en sá sem hér stendur vill að niðurstaðan verði eftir sem áður innan þeirrar tölu sem fyrst var nefnd, 2,8 milljarðar, að ekki verði farið umfram þá tölu. Þess vegna þarf vafalítið að hafna einhverjum þeirra krafna um aukin útgjöld sem fram koma á næstu dögum. Við höfum einfaldlega ekki efni á þeim. Við ætlum að reyna að ná hér frumjöfnuði og heildarjöfnuði þar á eftir. Eins og menn hljóta að vera sammála um, bæði innan stjórnar og stjórnarandstöðu, er meginverkefni þeirra fjárlaga sem hér eru til umfjöllunar og hefur verið meginverkefni fjárlaga áranna eftir hrun að ná vaxtagjöldunum út úr þessum bókum, ná vaxtagjöldunum sem mest niður til að geta breytt þeim vöxtum í velferð. Það hlýtur að vera meginverkefnið og menn hljóta að vera sammála um það.

Ég held, herra forseti, að þessi fjórðu fjárlög sem fram undan eru í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sýni að vinstri flokkunum er treystandi til fjárlagagerðar. Vinstri flokkunum er ef til vill (Forseti hringir.) mun betur treystandi til fjárlagagerðar en öðrum flokkum.