141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get þó ekki sagt að ég hafi verið sammála öllu því sem kom fram í máli hans. (Gripið fram í: Nú?) Nei, það get ég alls ekki sagt.

Hv. þingmaður byrjaði með miklum eldmóð og sagði orðrétt: Við getum verið bjartsýn eftir lestur frumvarpsins þegar árangurinn blasir við og megum og eigum að vera stolt. Niðurskurðartímabilinu er lokið og leið jöfnuðar farin í tíð þessarar ríkisstjórnar, það var ekki sjálfgefið. Síðan sagði hv. þingmaður líka að komið væri til móts við barnafjölskyldur og þeim hlíft, niðurskurðinum væri lokið og viðspyrna hafin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann því nú blasir sá dapurlegi veruleiki við íbúum Snæfellsbæjar að aðra hverja helgi er heilsugæslustöðinni lokað í 1.800 manna sveitarfélagi og fólki sem þar býr ber að sækja læknisþjónustu til Grundarfjarðar. Eins og hv. þingmaður veit, og þekkir til á því svæði, er oft ófært á milli þeirra staða. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé stoltur af þeim árangri og hvort hann sé að tala um þann árangur, að það sé komið þannig fram við íbúa þessa sveitarfélags. Íbúarnir sem þarna búa, og ég er nú á meðal þeirra, fólkið skilur þetta ekki. Það er kannski ósanngjarnt að biðja hv. þingmann að útskýra það í stuttu andsvari en ég hvet hann til að halda aðra ræðu til að útskýra fyrir fólkinu sem þarna býr hvort það sé í raun og veru bara vinnudýr fyrir ríkissjóð því að á sama tíma og verið er að loka heilsugæslunni aðra hverja helgi er verið að taka nokkur hundruð milljónir út úr sveitarfélaginu í formi auðlindagjalds til að skaffa hér í hítina.

Síðan kom hv. þingmaður inn á fjárfestingaráætlunina, sem ég mun auðvitað fara yfir í minni ræðu, (Forseti hringir.) sem er nánast eintómt rugl. Hvernig útskýrir hv. þingmaður það sem leið jöfnuðar og réttlætis?