141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:29]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki talsmaður þess að loka heilsugæslunni, þvert á móti, ég vil að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og annarri opinberri þjónustu. Ég er reyndar talsmaður þess að áður en við jöfnum vægi atkvæða á landinu jöfnum við vægi opinberrar þjónustu. Við jöfnum ekki vægi atkvæða fyrr en að hinu uppfylltu að mati þess sem hér stendur, menn geta verið ósammála mér.

Vitaskuld varð að grípa til aðhaldsaðgerða strax eftir hrun og það var farið í að mörgu leyti harkalegar aðgerðir til þess að koma til móts við þann raunveruleika sem ríkissjóður bjó við. Það var ekkert sérstaklega þægilegt að fara í þá vegferð. Að standa á fjölmennustu fundum sem haldnir hafa verið, t.d. á Húsavík þar sem í 5.000 manna samfélagi komu um 1.500 manns og mótmæltu harkalega niðurskurðaráformum á sjúkrahúsinu þar. Ég vænti þess að álíka samkomur hafi verið haldnar á þeim tíma á Vesturlandi, fólki er annt um þá þjónustu. Þess vegna hefur sá sem hér talar oftsinnis bent á mikilvægi þess að landinu verði skipt niður í skilgreind byggða- og þjónustusvæði þar sem þjóðarsátt ríki um lágmarksþjónustu og það ber að gera.

Niðurskurðartímabilinu er að mínu mati lokið. Við þurftum að grípa til erfiðra aðgerða á þeim pósti sem annars staðar. Við reyndum hins vegar að verja störfin innan heilbrigðisgeirans, innan framhaldsskólageirans, og það tókst þokkalega. En nú eigum við að nota þá viðspyrnu sem (Forseti hringir.) fram undan er í að skila til baka þeim aðhaldsaðgerðum, (Forseti hringir.) sérstaklega til heilbrigðisgeirans og menntageirans.