141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:33]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður og góður félagi minn í hv. fjárlaganefnd nefnir brjálaðar aðgerðir. Það varð engu að síður að fara í mjög viðamiklar aðgerðir og þær komu til af kolbrjáluðu ástandi. Þær komu til af kolbrjálaðri vegferð sem farin var þegar viðskiptalífið tók völdin af löggjafanum.

Ég ætla að nefna nokkrar tölur. Við þurftum að fara í miklar aðgerðir en hvar hafa þær helst skilað sér? Uppsafnaður niðurskurður á framlögum til heilbrigðisstofnana úti á landi er einhvers staðar á milli 17–18%. Það er mikið en hann varð mestur í Reykjavík, þar á meðal á Landspítalanum, nokkuð yfir 20%, ef ég man nákvæmlega rétt var hann 23%. Það er því ekki eins og ríkisstjórnin hafi farið með beittasta hnífinn út á land heldur skar hún meira niður á meginsjúkrahúsi landsmanna en á sjúkrahúsum og heilsugæslum úti á landi og það er vel vegna þess að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að aðgangur landsmanna, sem eru að afla þjóðarbúinu mikilvægra gjaldeyristekna, að lykilþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og menntaþjónustu verður að vera tryggur. Það er einmitt kannski þess vegna sem minna var skorið niður á heilbrigðisstofnunum úti á landi, þótt það hafi verið erfitt, en hér í höfuðborginni. Ég held að það hafi á sinn hátt einmitt verið leið jafnaðar út úr vandanum, að skera hlutfallslega meira niður á þeim stöðum sem gátu tekið meira á móti niðurskurði í krafti stærðar en á þeim stöðum sem gátu það síður í krafti smæðar.