141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég hegg eftir því að í umræðunni um frumvarpið sem hér liggur fyrir er reynt að verja það, eins og hv. þingmaður Sigmundur Ernir gerir, með því að nú sé viðspyrnu náð og menn hafi staðið í niðurskurði á grundvelli jafnréttis, hlíft veikum stöðum o.s.frv.

Fyrst varðandi það að auðveldast sé að skera niður í útgjöldum til þeirra sem mest hafa undir í veltu. Þrátt fyrir það stöndum við uppi með að búið er að skera niður læknisþjónustu á sumum stöðum úti um land. Það er bara búið að segja: Sjoppunni er lokað. Það er alvarlegt og enginn jöfnuður fólginn í slíku, það er bara langur vegur frá því og væri hægt að tiltaka ýmis dæmi.

Ég hjó eftir því, og vil gera að sérstöku umræðuefni hér, að hv. þingmaður nefndi að ekki yrði farið fram úr halla upp á 2,8 milljarða. Þá geri ég ráð fyrir því að skorið verði niður á milli 2. og 3. umr. í fjárlögum fyrir þeim útgjöldum sem á eftir að taka inn í frumvarpið, m.a. vegna Íbúðalánasjóðs upp á 13 milljarða, áforma um Landspítalann, Hörpu, löggæsluna, háskólana o.s.frv. Er það réttur skilningur hjá mér? Ég bið hv. þingmann að svara mér hvort við megum þá eiga von á niðurskurðartillögum á móti þeim boðuðu útgjöldum, sem koma væntanlega fram um eða eftir helgi, fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga.