141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:37]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get lofað hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni því að við munum ekki hafa tillögur hv. ungra sjálfstæðismanna, sem leggja til að skorin verði niður u.þ.b. 30 þúsund störf á landinu, sem fyrirmynd í þeim efnum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er endilega sammála því enda væri mjög áhugavert út af fyrir sig að heyra hvort hann væri algjörlega ósammála þeim hugmyndum eða ekki. Ég hef staldrað við þá tölu, 2,8 milljarða, ég vil ekki fara fram úr henni. Ef það koma fram mjög þróttmiklar tillögur í útgjaldaveru þurfum við einfaldlega að skera niður á móti, það gefur augaleið, eða afla nýrra tekna sem er ekkert endilega skárri leið. Ef til vill fer það svo að einhver af þeim tekjuáformum sem lögð eru til í þeim hluta fjárlagafrumvarpsins ganga ekki eftir og þá þarf að afla nýrra tekna, e.t.v. með meiri aðhaldskröfu og millifærslu.

Ég tel að í fjárlagafrumvarpinu hafi verið tekið tillit til margra viðkvæmustu óskanna. Margar stofnanir krefjast meiri fjármuna en það er ekki sjálfgefið að verða við öllum þeim óskum. Ég tel reyndar að það séu mjög fáar, e.t.v. teljandi á fingrum annarrar handar og varla það, sem þarf að koma til móts við í frekari mæli eftir 2. umr. fjárlaga. Ég útiloka samt ekkert í þeim efnum en bind mig við þá tölu. Við höfum ekki efni á meiru, við getum ekki haldið áfram í hallarekstri ríkissjóðs. Við erum að ná (Forseti hringir.) endum saman og getum ekki farið að gefa í umfram efni.