141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:42]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er spurt að mörgu, það er vel. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að hafa verið vitni að því góða starfi sem hefur farið fram í hv. fjárlaganefnd á undanliðnum árum. Þar hefur samstarf verið gott og umfram allt málefnalegt og umræðan í dag hefur verið málefnaleg. Ég held mig við þessa tölu, 2,8 milljarða, og ef fara á fram með frekari útgjöld verður vitaskuld að skera niður á móti.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega Íbúðalánasjóð sem ef til vill kallar á 13 milljarða kr. Það verður þá væntanlega í formi skuldabréfs og gjöldin af því eru, ég hef heyrt tölu alveg upp í 710 millj. en sennilega er það einhvers staðar á milli 500 og 600 millj. kr. sem er þó dágott og mundi þá fara yfir töluna sem ég nefndi áðan. Það verður að gera með því að skera niður á móti og það má þá ef til vill vera téð náttúruminjahús sem áform eru uppi um. Samningar milli ríkis og sveitarfélaga í þá veru eru ekki að baki og eftir því sem ég veit best hefur oftsinnis ríkt sá andi milli borgar og ríkis að báðir aðilar deili kostnaði svo sem eins og með Hörpu þar sem, ef ég man rétt, ríki og borg deila með sér langmestum kostnaðinum. Ef ég man rétt er hlutfallið þar 60:40, herra forseti, en sú tala kann að vera röng. Ég leiðrétti hana þá síðar.

Þessu vil ég til svara: (Forseti hringir.) Ef útgjöldin aukast enn frekar þarf mjög líklega að (Forseti hringir.) skera niður á móti og þar er af ýmsu að taka.