141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini Sigurðssyni fyrir hans ágætu ræðu. Ég vildi að ég tryði þeirri glansmynd sem hann og félagar hans í hv. fjárlaganefnd draga upp af stöðu ríkisfjármálanna. Það er auðvitað freistandi að spyrja þingmanninn hvort hann telji að staðan verði jafngóð þegar málið kemur til 3. umr. og búið verður að taka tillit til þeirra stóru þátta sem vitað er að munu koma til skoðunar milli 2. og 3. umr. Og hvort það mundi ekki hugsanlega borga sig að spara aðeins stóru orðin þegar ljóst er að það á eftir að taka inn í fjárlögin milljarða eða jafnvel tugmilljarða útgjaldaskuldbindingar.

Eins væri freistandi að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að tekjuforsendur frumvarpsins væru traustar. Við erum nú í þeirri stöðu að vera að ræða fjárlög við 2. umr. og það er ekki búið að leggja fram tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar í málinu. Það er ekki endanlega ljóst hygg ég, hæstv. forseti, hvernig þau munu líta út en hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson getur kannski upplýst mig um það.

Ég ætlaði hins vegar fyrst og fremst, af því að hv. þingmaður er formaður allsherjarnefndar auk þess að eiga sæti í fjárlaganefnd, að spyrja hann út í löggæslumálin. Hann nefndi að til stæði að taka þau fyrir milli 2. og 3. umr. Ég fagna því og vona að hann geti gert eins og hv. formaður fjárlaganefndar, ýtt undir vonir um að bætt verði úr þeim vanda sem er vissulega fyrir hendi. Það er mikill vandi hjá ýmsum embættum úti á landi, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi, en einnig hjá stærri embættunum og embættunum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fækkun almennra lögreglumanna hefur verið mikil á undanförnum árum og er mikið áhyggjuefni. Ég vona að hv. þingmaður geti staðfest að (Forseti hringir.) úr því verði bætt.