141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa í orð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar þar að lútandi. Ég hef sömu upplýsingar og hann um þau mál og efast ekki um að það gangi fram eins og um var rætt. Það er sjálfsagt að reka á eftir því og draga það sérstaklega fram hérna í umræðunni, enda mikilvægt að það sem liggur (Gripið fram í.) — ég styð það alveg heils hugar — að það gangi fram og ég hef stutt allt sem gerir framkvæmdir á því svæði að veruleika. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir svæðið, eins og landið allt, að þau áform gangi eftir. Til að þau gangi eftir þurfa sérstaklega samgöngumálin að vera í góðu lagi.

Ég nefndi áðan að eitt stærsta samgönguverkefni sem við höfum um nokkurt skeið ákveðið á Alþingi að ráðast í, Vaðlaheiðargöngin, voru samþykkt hérna fyrir nokkrum mánuðum síðan, sem betur fer. Ég held að það skipti mjög miklu máli að verkefnið verði að veruleika og hafi mikil og jákvæð áhrif.

Hvað varðar heiðurslaunin er það einfaldlega svo að Alþingi samþykkir á hverju ári listann yfir þá sem eru á heiðurslaunum. Vinnureglan hefur verið sú að þeir sem eru settir á listann eru á honum þó svo að þeir stundi tímabundið einhver önnur störf á meðan. Skattgreiðendur geta valið einhvern af þeim einstaklingum á þing í nokkur ár og þeir veljast til ýmissa annarra starfa. Þarna er hægt að nefna einstaklinga sem hafa ýmis störf með höndum, það hefur ekkert með það að gera. Það er fyrst og fremst um heiðurinn að ræða, launin eru algjört aukaatriði, þannig að heiðurinn er það sem máli skiptir en ekki tímabundin störf einstakra listamanna við eitthvað annað en list sína.