141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður talaði um að ég hefði talað með miklum ótta og væri jafnvel að gera lítið úr því verkefni sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn stóðu frammi fyrir hér þegar þau tóku við völdum. Ég held ég hafi sagt það ábyggilega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í ræðu minni að mér finnst verkefnið sem er fram undan gríðarlega stórt og mikil áskorun. Þess vegna sagði ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar: Byrjum bara hér, verkefnið er þarna, hættum að rífast um það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera og annað. Ég notaði engan tíma í minni ræðu í það að tala um skattstefnu ríkisstjórnarinnar eða neinar niðurskurðartillögur, ég hefði getað gert mikið meira af því og get tekið það sem hvatningu frá hv. þingmanni að halda nokkrar svoleiðis ræður.

Svo kemur þetta útspil sem heyrist stundum: Hvar ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að skera niður? Ætlar hann að skera niður í heilbrigðisþjónustu? Við höfum áhyggjur af því.

Ég vil bara rifja það upp að fyrir ári síðan lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram tillögur um það að skera ekki niður í heilbrigðismálum. Við komum með útfærðar tillögur um það að skera niður annars staðar á móti, við jukum ekki útgjöld ríkissjóðs. Og það kom mjög skýrt fram í ræðu minni og það eru ekki deilur um það og við megum ekki búa til deilur um það, að við þurfum auðvitað að hlífa velferðarþjónustunni, grunnstoðunum, löggæslunni, velferðinni.

En ég vara við því að á sama tíma og er verið að loka heilsugæslustöð aðra hverja helgi, þá erum við að fara að byggja hús íslenskra fræða fyrir tæpa 4 milljarða og svo koll af kolli. Ég vara við að fara í frekari svoleiðis framkvæmdir því að það gerist ekkert þó að það bíði og það má sko alveg bíða.