141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir afskaplega góða og ítarlega ræðu. Nú vil ég ekki tefja þessa umræðu en mér fannst hv. þingmaður ekki ræða nægilega vel um agann í ríkisfjármálum. Þá á ég við að ríkisreikningur er iðulega öðruvísi en fjárlög og fjáraukalög, þ.e. það munar verulega miklu á útgjöldum aðallega, ekki á tekjum. Ég vil spyrja hv. þingmann sem situr í fjárlaganefnd hvort þetta hafi verið rætt sérstaklega í nefndinni og hvort menn hyggist grípa til aðgerða til þess að segja upp einhverjum forstjóra ríkisstofnunar sem fer fram úr. Þegar ríkisreikningurinn sýnir hærri gjöld en fjárlög eða fjáraukalög segja til um er það brot á stjórnarskrá. Þá hefur einhver greitt út peninga sem ekki má greiða út samkvæmt stjórnarskránni.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur verið skoðað í nefndinni að þessar greiðslur séu settar upp á borðið, hvaða stofnanir eða ráðuneyti fóru umfram og hver ber ábyrgð á því að brjóta stjórnarskrána? Ég reyndi að giska á það um daginn, þetta voru um 40 milljarðar hvort árið sl. tvö ár. Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta, hvort menn hafi hugleitt það í nefndinni að beita eða koma á meiri aga í ríkisfjármálum.