141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að tefja umræðuna en ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar, þetta er nefnilega kjarni málsins. Eftir höfðinu dansa limirnir og þegar ríkissjóður leyfir sér að vera með 100 milljarða í útgjöld sem ekki má greiða út samkvæmt stjórnarskrá, hvað skyldu menn þá hugsa í sveitarstjórnunum? Hvað skyldu menn hugsa í fyrirtækjum? Hvað skyldi einstaklingurinn hugsa? Það er ekki bara verið að brjóta lög, það er ekki bara verið að brjóta skattalög eða fjárlög eða eitthvað slíkt, það er verið að brjóta stjórnarskrána, sem menn ræða mikið um að hafi mikið gildi.

Hv. þingmaður nefndi þarna eitt dæmi og það væri kannski áhugavert að fá frá fjárlaganefnd lista yfir þær stofnanir ríkisins og ráðuneyti sem hafa farið umfram fjárlög í ríkisreikningi.