141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:16]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að koma inn á tiltekin atriði í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið. Ég vil fyrst segja að það er ánægjulegt að margt er að leggjast með okkur í þróun efnahagsmála og þar af leiðandi fjármála ríkisins. Það eru meiri tekjur sem koma inn en jafnvel var búist við. Atvinnulífið er sterkara og stöðugra en margur gat átt von á við efnahagshrunið sem varð 2008, 2009. Þess sér líka stað í því fjáraukalagafrumvarpi sem hér hefur verið lagt fram og er til umræðu. Þá hafa einnig verið lagðar fram við 2. umr. fjárlaga allmargar breytingartillögur af hálfu meiri hlutans í fjárlaganefnd við það frumvarp sem upphaflega var lagt fram sem miða að því að styrkja og bæta tiltekna þætti í rekstri ríkisins og stofnana þess og þeim verkefnum sem það ber ábyrgð á.

Þá er jafnframt boðað að fyrir 3. umr. verði gerðar leiðréttingar á tilteknum fjárlagaliðum, bæði stórum og smáum, sem við getum rætt frekar við 3. umr.

Ég ætla fyrst og fremst að koma inn á tiltekin atriði sem ég vil leggja áherslu á við þessa umræðu, ekki hvað síst til að geta skoðað þau frekar fyrir 3. umr.

Ég vil í upphafi minnast á litlar tölur í þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar fram við 2. umr. sem skipta samt miklu máli. Þó svo að stóru tölurnar og stóru verkefnin ráði langmestu um niðurstöðutölur eru það engu að síður hin minni verkefni sem skipta almenning, einstaka byggðir og stofnanir miklu máli. Ég vil nefna sem dæmi að nú kemur inn við 2. umr. fjárlaga framlag til sýslumannsembættisins á Blönduósi til að það geti haldið áfram tilteknum innheimtum fyrir stofnanir sem það hefur sinnt. Það skiptir miklu máli fyrir þau verkefni sem þar eru unnin og hefur gengið mjög vel með.

Þá vil ég líka nefna eflingu framhaldsnáms í heimabyggð og gleðst yfir því af því að það er verkefni sem ég barðist einmitt fyrir þegar ég kom inn á þing 1999. Eitt fyrsta þingmálið sem ég flutti þá, nýkominn á þing, var að ungt fólk gæti stundað nám í heimabyggð til 18 ára aldurs og að möguleikar fólks til að stunda framhaldsskólanám heiman að frá sér, hvar sem það byggi á landinu, yrðu auknir eins og kostur væri. Fyrsta tillaga mín var um framhaldsskóla á Patreksfirði, man ég, á Snæfellsnesi, á Hólmavík og við utanverðan Tröllaskaga.

Nú er þetta flest orðið að veruleika eða er að verða það. Stofnaður hefur verið framhaldsskóli á Snæfellsnesi, framhaldsdeild á Patreksfirði í Vesturbyggð sem sækir stuðning sinn til framhaldsskólans á Snæfellsnesi í Grundarfirði. Það er komin framhaldsdeild í Fjallabyggð eða við utanverðan Eyjafjörð og nú í haust var að hefjast nám við framhaldsdeild á Hvammstanga í tengslum við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Það var mjög ánægjulegt og gleðilegt að vera viðstaddur fyrir skömmu síðan þegar það verkefni var formlega sett í gang, þótt að það hafi farið af stað í haust, og var mikil ánægja með það.

Einnig sé ég í fjárlagafrumvarpinu núna fjárveitingu, þó að ekki sé hún mikil, 5 millj. kr., til að ungt fólk á Hólmavík og í nágrenni geti sótt framhaldsnám heiman frá sér við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Það fer í vinnslu í vetur og verður vonandi komið til framkvæmda næsta haust. Það er mjög ánægjulegt að ýmis atriði af þessu tagi skuli vera orðin að veruleika. Ég vil nefna þetta því að það eru einmitt þessi atriði sem skipta ekki hvað síst máli. Fleiri atriði mætti nefna í fjárlagafrumvarpinu sem ástæða væri til að vekja athygli á.

Herra forseti. Þau atriði sem ég ætla að vekja athygli á við 2. umr. eru verkefni sem ég tel að bæði Alþingi og hv. fjárlaganefnd eigi að skoða mjög vandlega á milli umræðna, fyrir 3. umr. Ég vil fyrst nefna stöðu íslensku þjóðkirkjunnar en það er alveg ljóst, að minnsta kosti mér og ég veit fjölmörgum öðrum, að starf þjóðkirkjunnar vítt og breitt um landið skiptir gríðarlegu máli, ekki aðeins fyrir trúarlíf og trúariðkun heldur ekki síður fyrir menningarlíf og vegna þeirra mörgu og mikilvægu samfélagsverkefna sem kirkjan og kirkjustarfið stendur fyrir, byggir upp og rekur. Gríðarlegt sjálfboðaliðastarf tengist þessum verkefnum. Við þekkjum vel safnaðarstarfið, við þekkjum kórastarfið, barnastarfið og margháttuð félagsleg störf sem kirkjan og söfnuðirnir standa að vítt og breitt um landið.

Þess vegna er mjög alvarlegt þegar nú er áfram gengið á grundvallartekjustofna þjóðkirkjunnar eins og raun ber vitni. Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir hönd sóknanna til að þær geti starfað og sóknargjöld eru eins konar félagsgjöld meðlima þjóðkirkjunnar sem renna beint til sóknanna vítt og breitt um landið. Alls eru um 270 sóknir. Sóknargjöldin standa undir margháttaðri starfsemi í þjónustu við almenning og starfsemi kirkjunnar miðar einmitt að uppbyggingu samfélagsins og þeirra þátta sem helst stuðla að andlegri velferð, þar á meðal hin mörgu samfélagslegu verkefni, eins og ég nefndi

Þess vegna er mjög alvarlegt þegar sóknargjöldin, gjöldin sem renna til þessarar starfsemi kirkjunnar, eru enn skert. Kirkjan tók á sig skerðingar við hið erfiða efnahagsástand fyrir tveimur árum en þá var því jafnframt lofað að þetta yrði leiðrétt svo skjótt sem verða mætti og staðið við þá samninga sem gerðir hafa verið við þjóðkirkjuna. Þessi ítrekaða skerðing á tekjustofnum kirkjunnar skiptir hundruðum milljónum króna, er jafnvel upp á annan milljarð króna, skerðing á tekjustofnum sem hún hefur samið um og byggt starfsemi sína á. Þetta er mjög alvarlegt og ég skora á hv. fjárlaganefnd að skoða málefni þjóðkirkjunnar, skoða samninga sem ríkið hefur gert við þjóðkirkjuna um þær tekjur sem eru grundvöllur fyrir starfsemi hennar.

Herra forseti. Ég verð að segja að þetta er mér hjartans mál og ef ekki koma fram leiðréttingar á framlögum til kirkjunnar við 3. umr. frá hv. fjárlaganefnd tel ég einsýnt að Alþingi verði að taka á málinu með beinum hætti.

Herra forseti. Þá vil ég næst ræða atriði sem lýtur að öðrum verkefnum á landsbyggðinni, en hinar dreifðu byggðir eru miklu viðkvæmari fyrir niðurskurði og fjárvöntun í skipulagðri þjónustustarfsemi en þéttbýlið.

Ég vil fyrst nefna raforkumálin og þar er um mikla mismunun að ræða hjá fólki eftir búsetu. Sum heimili eru á svokölluðum köldum svæðum. Veitt er framlag upp á tæpar 200 millj. kr. til að jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum, en sú upphæð sem þarf til að koma á fullkomnum jöfnuði eins og lofað hefur verið er um 500 millj. kr. Orkan til að hita hús í landinu er jú sameiginleg og það er mikið kappsmál að þessi kostnaður sé jafn, óháð því hvar menn búa.

Hið sama gildir um dreifikostnað rafmagns. Við vorum bara í dag að heyra að Landsnet ætli að hækka dreifikostnað sinn, og hvert fer hann? Jú, hann lendir fyrst og fremst á hinum almennu notendum því að samningar við stórnotendur, álverin og þess háttar, eru bundnir þannig að ekki er hægt að ganga svo greitt þar inn. Því var lofað við innleiðingu raforkutilskipunar Evrópusambandsins fyrir nokkrum árum að ríkið mundi tryggja jöfnuð í þessum efnum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vitna til ágætrar greinar sem góður félagi og fyrrverandi alþingismaður og forseti þingsins, Árni Steinar Jóhannsson, skrifaði í Morgunblaðið 20. september síðastliðinn, en hann er stjórnarformaður Rariks.

Greinin er skrifuð meðal annars í tilefni af þeim miklu hremmingum sem við lentum í í óveðrinu í september og hvað skiptir einmitt máli að vera með öfluga innviði, enda heitir þessi ágæta grein Árna Steinars Jóhannssonar: Traustir innviðir eru gæfa hverrar þjóðar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær hremmingar sem við höfum farið í gegnum nú gefa tilefni til þess að vekja umræðu um það stóra mál sem kostnaður við dreifingu rafmagns í landinu er. Allir sem þekkja til eru sammála um að það er herfileg misskipting á sameiginlegum gæðum, að það skuli vera hlutskipti notenda á dreifiveitusvæði Rariks og Orkubús Vestfjarða að standa straum af þeim gríðarlega kostnaði sem felst í því að afhenda orku í hinum dreifðu byggðum landsins.“

Áfram segir í ágætri grein Árna Steinar Jóhannssonar, með leyfi forseta:

„Í orði er löggjafinn sammála þessu vegna þess að með nýrri skipan raforkumála voru samþykkt sérstök lög nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku. Markmið þeirra laga er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku til almennra notenda. En eins og við vitum þá er eitt í orði og annað á borði. Fjárveitingavald Alþingis hefur aldrei frá setningu laganna komið inn með þá fjármuni sem til þarf til þess að jafna þennan kostnað. Á fjárlögum fyrir 2013 þurfa þessar niðurgreiðslur að hækka um 800 milljónir króna.“

Segir stjórnarformaður Rariks, Árni Steinar Jóhannsson, og áfram segir:

„Annar handleggur er að niðurgreiðslur til húshitunar á köldum svæðum hafa staðið í stað um áraraðir. Iðnaðarráðuneytið skipaði starfshóp til þess að gera úttekt á þeim málum. Skýrslu starfshópsins um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar var skilað í desember 2011. Þar kemur fram að niðurgreiðslur til húshitunar þurfa að aukast um 500 milljónir króna.“

Ég tek svo sannarlega undir það sem segir í grein stjórnarformanns Rariks, Árna Steinars Jóhannssonar.

„Traustir innviðir eru aðalsmerki hverrar þjóðar. Í nútímasamfélagi er dreifing og afhending raforku einn af stórum hornsteinum nauðsynlegra innviða. Landið verður ekki nýtt, það verður ekki um það farið og í því verður ekki lifað og starfað án þess að afhending á raforku sé örugg og í boði á viðráðanlegu verði. Með breytingu á raforkulögum ákvað Alþingi að jöfnun á kostnaði við dreifingu á rafmagni í dreifbýlinu skuli gerð með framlögum í fjárlögum ár hvert. Við þessa ákvörðun verður að standa þar til önnur eða betri leið verður fundin í þessum efnum.“

Lokaorð Árna Steinars Jóhannssonar eru, með leyfi forseta:

„Að óreyndu verður ekki öðru trúað en að þingmenn taki þetta stóra mál dreifbýlisins til alvarlegrar umræðu og að viðunandi niðurstaða fáist hvað varðar á niðurgreiðslu til almennra nota á raforku í dreifbýlinu og jöfnunar á húshitunarkostnaði á köldum svæðum.“

Herra forseti. Ég held að litlu sé að bæta við þessa ágætu grein. Þetta er málið í hnotskurn. Þessu var lofað af hálfu stjórnvalda þegar innleiðing á raforkutilskipuninni var gerð en eins og rakið er í greininni hafa stjórnvöld ekki staðið við það. Þetta er kannski ein alvarlegasta mismununin sem landsmenn verða að búa við, ekki síst í hinum dreifðu byggðum inn til sveita þar sem raforkan er jafnvel líka bara einfasa og erfitt er að nota þar nýjustu tækni. Þeir íbúar þurfa að borga miklu hærri dreifingarkostnað en gert er annars staðar.

Herra forseti. Ég skora á hv. fjárlaganefnd að skoða þetta mál og gera sér grein fyrir því að ábyrgð Alþingis er mikil. Þetta er loforð sem gefið var íbúum hinna dreifðu byggða.

Það er líka umhugsunarefni í þessu sambandi að viðbrögðin í fjárlagafrumvarpinu eru þau að í stað þess að koma inn með fjármuni þá eru þessi þjónustufyrirtæki, Rarik og Orkubú Vestfjarða, krafin um arðgreiðslur til ríkisins, arðgreiðslur sem eru eitthvað á fjórða hundrað milljónir kr. að því er nefnt hefur verið hjá Rarik. Ég hef ekki töluna á hraðbergi hjá Orkubúi Vestfjarða en tilsvarandi krafa er gerð þar. Ég mótmæli því að verið sé að taka fé út úr þeim almenningsfyrirtækjum eins og tillögur eru gerðar um. Það er miklu nær að þeir fjármunir séu nýttir og þjónustufyrirtækin fái tækifæri til að nýta þá fjármuni til að byggja upp innviði sína, eins og stjórnarformaður Rariks bendir svo rækilega á, til að leggja nýja strengi, til að auka þrífösunaröryggi í flutningi rafmagns, svo dæmi séu tekin.

Herra forseti. Það að ætla ekki að standa við það loforð sem gefið var við innleiðingu raforkutilskipunarinnar um að jafna dreifikostnað og gera í staðinn arðsemiskröfur til ríkisins á þau þjónustufyrirtæki er eitthvað sem gengur ekki upp. Ég bið hv. fjárlaganefnd að skoða málið á milli umræðna. Maður horfir til þeirra verkefna sem eru tilfinnanleg, ekki síst fyrir landsbyggðina og sem þarf að taka á á milli umræðna.

Herra forseti. Ég vil næst nefna innanlandsflugið. Það er alveg ljóst að innanlandsflugið er gríðarlega mikilvægt fyrir samgöngur og almannaþjónustu í landinu, enginn deilir um það. Fyrir marga staði er það mikilvægasta og kannski eina samgönguleiðin tímunum saman, fyrir utan að stytta vegalengdir og tengja saman atvinnu- og þjónustulíf. Við sjáum að menn geta farið frá Reykjavík til Akureyrar og kennt í háskólanum og komið svo til baka aftur, svo dæmi sé tekið. En flug til sumra staða ber sig ekki fjárhagslega og þykir mönnum fargjöldin vera orðin býsna há, ég nefni til dæmis Gjögur, Höfn í Hornafirði, Ísafjörð og Bíldudal. Nú hefur það áætlunarflug verið sett í uppnám vegna þess að ekki eru fjárveitingar til að veita þann nauðsynlegan stuðning sem þarf í því flugi.

Talið er að um 100 millj. kr. þurfi, svo einhver tala sé nefnd, til að standa undir lágmarkskröfum í því sambandi. Það er óþolandi að innanlandsflugið sé látið vera í þeirri óvissu sem það hefur verið í. Það þarf að vera alveg tryggt að nægilegt fjármagn sé í fjárlögum til að hægt sé að reka það. Ég minnist þess að í fyrra var einmitt tekist á um flugið á Sauðárkrók. Talið var að fé hefði verið lagt fram til að tryggja flug á Sauðárkrók. Svo reyndist ekki vera og flug á Sauðárkrók lagðist af.

Vonandi verður það tekið upp aftur nú um áramótin, ég vona það. En það byggir á því að veittur sé grunnstuðningur til þess til að halda þeim flugleiðum opnum og gangandi sem ekki bera sig ef horft er til arðsemi. Þetta er hluti af samgöngumannvirki þjóðarinnar og á að skoða sem slíkt. Sama gegnir líka um viðhald á ýmsum flugvöllum, ekki hvað síst á hinum minni flugvöllum. Þó svo að flug verði tryggt er ekki víst að flugvellirnir uppfylli lengur þau skilyrði og öryggiskröfur sem gerðar eru til þeirra vegna þess að viðhaldið á þeim er vanrækt. Þetta eru grunnatriði í samgöngumálum þjóðarinnar. Ef ekki er stutt við þær byggðir sem liggja afskekkt og eru kannski á ýmsan hátt í veikri stöðu þá bitnar það bara á þeim og það má ekki vera hlutskipti Alþingis að láta það viðgangast.

Þá er kannski rétt að víkja að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jöfnunarsjóði var komið á til að jafna tekju- og aðstöðumun sveitarfélaga vítt og breitt um landið. Sum sveitarfélög hafa slíka starfsemi, fyrirtæki og ríka íbúa að geta staðið undir nauðsynlegum þjónustuverkefnum sem sveitarfélaginu ber skylda til. Önnur hafa það ekki. Önnur hafa ekki álverksmiðju, án þess að ég ætli að fara að mæla með því að koma þeim upp í hverri byggð, en það er mjög misskipt hvað varðar fyrirtæki, fjarlægðarkostnað og fleira. Jöfnunarsjóður er því til að jafna þetta. Það hefur aldrei ríkt ágreiningur um að það væri hlutverk hans.

Hins vegar verður hann náttúrlega að fá sína skilgreindu tekjustofna eða hlutdeild í tekjuöflun ríkisins og hann þarf líka að fá fjármagn til að geta staðið undir þeim verkefnum. Nú skortir verulega á. Það skortir á að sérstakt framlag komi, eins og hefur verið, sem getur gengið til þeirra sveitarfélaga sem hafa búið við fólksfækkun og hafa búið við tekjuskerðingar á milli ára vegna þess. Það er nánast ekkert framlag til þess núna. Önnur sveitarfélög eru einnig mjög skuldug og hafa lent í miklum fjárhagsvandræðum og þá er gengið á tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að koma til móts við þær miklu skuldir, hvernig svo sem þær eru til komnar, hvort þær hafa komið til á sanngjarnan hátt, hvort þær framkvæmdir hafi bara verið til þess að skekkja samkeppnisstöðu og lífsskilyrði í byggðarlögum. Þá fer fjármagnið úr jöfnunarsjóðnum til þess að draga þau skuldugu sveitarfélög á flot og það tekið frá minni sveitarfélögunum sem þurfa þá að lenda illa í þeirri tekjuskerðingu sem þau búa við. Það vantar aukið framlag í jöfnunarsjóðinn til að mæta þeim skyldum sem hvíla á sjóðnum hvað það varðar. Þetta eru ekki háar upphæðir, það eru kannski um 200 millj. kr. að lágmarki sem þarf. Ég skora á hv. fjárlaganefnd að yfirfara þau mál.

Ég vil líka vekja athygli á stöðu heilbrigðisstofnana, sérstaklega á landsbyggðinni, sem hafa lent í miklum niðurskurði á undanförnum árum, mátt skera niður starfsemi, mátt búa við óöryggi sem fylgir því að halda læknum og sérhæfðu starfsfólki og misst það á sumum stöðum vegna hins mikla niðurskurðar sem hefur verið á þeim. Heilbrigðisstofnanirnar úti um land eru ein af grunnstoðum viðkomandi samfélaga. Heilbrigðisþjónustan ræður því að stórum hluta hvort fólk vill búa á viðkomandi stöðum eða ekki. Þess vegna er þetta svo viðkvæmt og því ber ríkinu skylda til þess að styðja vel við heilbrigðisþjónustuna. Þó að nú sé vissulega minni niðurskurður og varðandi sumar heilbrigðisstofnanir er að minnsta kosti látið í veðri vaka að ekki sé niðurskurður frá fyrra ári, þá veit ég þó um tilvik þar sem um það er að ræða. Ég hef þess vegna kallað eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið um hver sé staða þeirra vegna þess að því hefur verið lofað að við þessi fjárlög eigi ekki að skerða starfsemina frá því sem hún hefur verið nú á þessu ári.

Ég gæti nefnt Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki þar sem ég veit að skerðingin er meiri. Og miðað við óbreytt fjárlög, eins og er núna í fjárlagafrumvarpinu, er fjármagn ekki nægjanlegt til að halda óbreyttri starfsemi. Þetta er mjög mikilvægt og þess vegna nefni ég það. Þetta eru ekki neinar háar tölur en þær skipta þjónustustig samfélaganna vítt og breitt um landið mjög miklu.

Þá vil ég nefna landbúnaðarháskólana. Ég vil nefna Hólaskóla sem hefur búið við mikil fjárhagsvandræði síðan honum var breytt í háskóla með þeim kröfum sem því fylgdi. Með samþykkt þess frumvarps var einmitt skýrt tekið fram af hálfu fjárlagaskrifstofunnar, sem kostnaðarmetur hlutina, að sú breyting mundi hafa verulegan kostnað í för með sér og tilgreindi upphæðir í því sambandi. Það aukna fjármagn hefur ekki skilað sér til skólans.

Þegar hann var færður á milli ráðuneyta, frá landbúnaðarráðuneytinu og yfir til menntamálaráðuneytisins, var því líka lofað að tekið skyldi á þeim fjárhagsvanda sem þar hafði skapast en við það hefur ekki verið staðið. Síðan hefur á hverju ári undanfarin ár verið talað um að nú ætti að leysa fjárhagsvanda og koma til móts við hann, og enginn efast um og allir undirstrika hið góða starf sem þar er unnið. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkið standi við þær yfirlýsingar sem það gefur og fari að lögum sem það sjálft setur varðandi þær stofnanir. Ekki er hægt að setja það á starfsmenn eða forustumenn viðkomandi stofnana að reyna að ganga gegn þeim lögum sem ríkið hefur sjálft sett varðandi starfsemina. Alla vegana hefur ekkert verið gert enn í þessu máli og það er komið á mjög alvarlegt stig. Það er alveg ótrúleg þrákelkni af hálfu ríkisins hvað það varðar og svoleiðis getur ekki gengið lengur. Ef ekki kemur af hálfu hv. fjárlaganefndar fyrir 3. umr. klár leiðrétting og fjármagn inn í rekstrargrunn þessara stofnana þá verður Alþingi að taka á málinu með beinum hætti.

Ég held að enginn vilji sjá að starfsemi þeirra stofnana sé sett í það mikið uppnám að ekki sé ljóst eða tryggt að þær geti starfað áfram. Við leggjum mikla áherslu á eflingu græna hagkerfisins, við leggjum áherslu á nýsköpun sem tengist einmitt slíkri starfsemi, ferðaþjónustu og sjálfbærum greinum atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum. Og þeir skólar eru einmitt uppsprettan og stuðningurinn við það.

Það er því í hróplegu ósamræmi við stefnu stjórnvalda, stefnu sem ég fagna og allir eru mjög ánægðir með, þ.e. þær áherslur sem lagðar eru á svokölluð græn verkefni, sjálfbær náttúrutengd verkefni, en þá verðum við líka að fylgja þeirri ábyrgð eftir með því að setja ekki fjárhag þeirra stofnana í uppnám. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál, ekki aðeins fyrir þær stofnanir sem við berum ábyrgð á heldur og fyrir samfélagið allt, bæði nærsamfélagið og þjóðfélagið allt.

Ég vil líka nefna Háskólann á Bifröst sem stendur frammi fyrir vanda sem ekki hefur verið tekið á. Ég treysti því og skora á hv. fjárlaganefnd að taka á þeim málum fyrir 3. umr.

Herra forseti. Þetta voru ákveðin tilgreind mál sem ég vildi vekja athygli á milli 2. og 3. umr. sem ég legg þunga áherslu á að verði leiðrétt.

Að lokum vil ég aðeins víkja að þeim þáttum í fjárlagafrumvarpinu sem eru mér síst að skapi. Margt er gott í fjárlagafrumvarpinu eins og ég gat um áðan og sýnir sterka stöðu ríkissjóðs og undirstrikar margt gott í stefnu þeirra flokka sem mynda ríkisstjórnina. En eitt atriði er þó sem gengur þvert á það, held ég, sem þjóðin óskar eftir, alla vega það sem ég óska eftir. Það er það fjármagn sem fer til umsóknar að Evrópusambandinu. Sú vegferð með umsókn að Evrópusambandinu, án þess að þjóðin hafi verið spurð um hvort við viljum fara út í þá vegferð, er á fullu skriði og hún kostar fjármagn. Hún kostar bæði bein fjárframlög og óbein og gríðarlega mikla vinnu hjá ráðuneytum, stofnunum, félagasamtökum og hjá samtökum sveitarfélaga. Fjöldi fólks, ætli það séu ekki hundruð manna, leggur gríðarlega vinnu í það sem tengist Evrópusambandsumsókninni, sem Alþingi samþykkti naumlega að setja í gang. Ég samþykkti það ekki eins og allir vita.

Það eru ekki bara þeir fjármunir sem tilgreindir eru í fjárlagafrumvarpinu, beint og óbeint. Þar er líka tilgreint fjármagn sem Evrópusambandið leggur hingað inn sem þróunarstyrki til að undirbúa og aðlaga íslenskt samfélag, íslenskt stofnanakerfi að Evrópusambandinu, svokallaðir IPA-styrkir.

Þetta eru kannski hinir svörtu blettir, hin svörtu svæði, í fjárlagafrumvarpinu sem eru hvað alvarlegastir. Ekki er síður alvarlegt að mikið af þeim kostnaði og fyrirheitum sem gefin eru varðandi vinnu, breytingar á íslensku stofnanakerfi og búnaði eru gefin Evrópusambandinu tímasett án þess að þeirra sé getið í fjárlögum. Úr því að Alþingi vill vera með þá umsókn í gangi — sem ég tel reyndar að afturkalla eigi sem allra fyrst því að í rauninni er ekkert nýtt í því, við verðum að undirgangast lög og reglur Evrópusambandsins og hraðinn ræðst af því hversu hratt við getum breytt og orðið við kröfum þess — þá eru mörg loforð gefin um að ráðast í þessa og hina vinnu, í þessar og hinar fjárfestingar án þess að þess sé getið á fjárlögum. Það gengur einfaldlega ekki.

Ég hef þess vegna tekið saman og lagt spurningar fram á Alþingi varðandi þann kafla sem lýtur að skattamálum, 16. kafla í þessum viðræðum, þar sem nýlega hefur verið lögð fram samningsafstaða Íslendinga í skattamálum. Við verðum að athuga það að skattkerfi Íslendinga er ekki hluti af EES-samningnum heldur er það sérstakt. Þær breytingar sem verður að gera á íslensku skattkerfi, búnaði og tækjum eru fyrst og fremst til að þóknast kröfum Evrópusambandsins. Ég nefni þetta sem dæmi en í textanum segir, með leyfi herra forseta:

„Ísland mun hafa innleitt allt útistandandi regluverk og sett upp nauðsynlegan stofnanaramma og fyllilega rekstrarhæf tölvukerfi sem gera samhæfingu og samtengingu við viðkomandi kerfi Evrópusambandsins mögulega við aðild.“

Í textanum er einnig vísað til þess að lögð verði fram tímasett áætlun sem Evrópusambandið þarf síðan að taka afstöðu til.

Þess vegna hef ég lagt fram spurningar varðandi þennan eina kafla og tek sem dæmi, herra forseti, eftirfarandi spurningar:

Hver er kostnaðurinn við aðlögunarvinnu íslenskra stjórnvalda að Evrópusambandinu vegna breytinga á tölvukerfum á sviði vörugjalda vegna 16. samningskafla aðildarviðræðnanna um skattamál?

Hver er kostnaðurinn við að efna þetta loforð sem íslensk stjórnvöld gefa Evrópusambandinu?

Hver er kostnaðurinn við að skipta út núverandi tölvukerfi sem uppfyllir ekki kröfur Evrópusambandsins um gagnaskiptakerfi?

Sama hvaða skoðun við höfum á þessu, þó að ég sé alveg á móti þessu í verki, ef íslensk stjórnvöld eru að lofa að gera svona innan tímasettra marka, þá verður samt að gera grein fyrir því í fjárlögum. Ég legg áherslu á það

Síðan eru fleiri spurningar: Hver er kostnaðurinn við að efla stjórnsýslugetu embættis ríkisskattstjóra og tollstjóra vegna þessara verkefna á sviði tölvukerfa með ráðningum og þjálfun starfsmanna? Þetta er allt tíundað í þeim loforðum sem gefin eru Evrópusambandinu í þeim kafla. Ég undirstrika að þessi kafli er ekki hluti af EES, þess vegna er þetta algjörlega í þágu krafna Evrópusambandsins.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt sem er í gangi við Evrópusambandsumsóknina. Menn geta haft á ólíkar skoðanir, verið á móti henni eða með, ég virði það. En kostnað vegna umsóknarinnar, kostnað vegna aðlögunar, kostnað vegna innleiðingar á búnaði, tækjum og vinnu á að tilgreina í fjárlagafrumvarpinu en ekki vera með neinn feluleik í því sambandi. Þessi feluleikur í Evrópusambandsviðræðunum um kostnað, vinnu, framlög og það allt saman er gjörsamlega óþolandi, herra forseti.

Þetta (Forseti hringir.) verða þá lokaorðin (Forseti hringir.) hjá mér í þessari ræðu (Forseti hringir.) og þarf engum að koma á óvart að það skuli vera kostnaðurinn við Evrópusambandið.