141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulega frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að IPA-styrkirnir sem Evrópusambandið veitir hér inn til að aðlaga íslenska stjórnsýslu að Evrópusambandinu eru í samræmi við þá samþykkt sem Alþingi gerði í sumar um að taka við styrkjunum. Eðlilega verða þeir að koma inn í fjárlög.

Við tókumst á um styrkina í sumar og ég var þeim mjög andvígur. Ef við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu gerum við það með fullri reisn en eigum ekki að þurfa að fá til þess einhverja gullkálfa frá Evrópusambandinu til að fara yfir hina íslensku sjálfstæðismúra. Ég er jafnmikið á móti IPA-styrkjunum nú eins og þá, eins og hv. þingmaður er líka það ég best veit.

Varðandi kirkjuna fagna ég því sem hv. þingmaður sagði um að trúlega væru þingmenn í flestöllum flokkum, ef ekki öllum, sem vilja standa að baki kirkjunni. Það skortir á að ríkið standi við sína samninga í þeim efnum. Ég vil bara minna á, frú forseti, að ein af hinum ánægjulegu útkomum úr þjóðaratkvæðagreiðslu, eða þeirri skoðanakönnun sem átti sér stað um breytingar á stjórnarskránni, var afstaðan til þjóðkirkjunnar. Eitt það ánægjulegasta við það var að afgerandi meiri hluti þeirra sem tók þátt í atkvæðagreiðslunni vildi áfram öfluga og sterka þjóðkirkju. Það voru líka skýr skilaboð til Alþingis hafi einhverjir hér verið að efast um vilja þjóðarinnar í þeim efnum.