141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ræðu sem var mjög beinskeytt á vissan hátt.

Mig langar fyrst til að spyrja hann um aga í ríkisfjármálum og af því að hann situr í hv. fjárlaganefnd vildi ég spyrja hann … (Gripið fram í: Nei, hann er ekki þar.) Nú, þá ætla ég ekki að spyrja að því. (Gripið fram í.)

Það er annað sem hv. þingmaður sagði. Hann sagði: Alþingi á að taka á fjárveitingum til sjálfbærra, náttúrulegra verkefna. Hann sagði að það yrði að gera breytingu á því þannig að hann samþykkti fjárlagafrumvarpið. Nú er hv. Alþingi í þeirri stöðu að ríkisstjórnin er með minni hluta á Alþingi. Við erum líka í þeirri stöðu að það er kosningavetur. Á slíkum vetrum lofa menn gjarnan ýmsu hingað og þangað. Við erum eiginlega í þeirri stöðu að sérhver stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hefur neitunarvald á fjárlögum. Það geta því komið upp mjög skrautlegar kröfur einmitt í 2. umr. eða utan þingsalar um að þetta og hitt verkefnið verði að samþykkja, annars samþykki viðkomandi þingmaður ekki fjárlagafrumvarpið og þar með fellur ríkisstjórnin því hún stendur og fellur með fjárlagafrumvarpinu.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hversu harður er hann á því að fjárveitingar til þeirra verkefna sem hann talaði um verði auknar? Sér hann fyrir sér að svo sem eins og 20 aðrir þingmenn komi með kröfur um aukin verkefni í hitt og þetta? Hvernig reiðir þá fjárlagafrumvarpinu af, sérstaklega þegar við horfum til þess að það er kosningavetur?