141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aftur verð ég að vísa til þingreynslu hv. þingmanns sem hefur nú heldur betur og oft verið með sínar eigin skoðanir á tilgreindum málum sem hafa verið til umræðu í þinginu þó svo að hans flokkur og ríkisstjórn hafi jafnvel verið á allt annarri skoðun. Ég tel það einmitt vera skyldu þingmannsins í þingsal að vekja athygli á þeim atriðum sem hann ber fyrir brjósti. Ég get alveg viðurkennt að framtíð og stöðu Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal og Hólastaðar, sem ég vék að í því sambandi, ber ég svo sannarlega fyrir brjósti.

Ég treysti því líka að það þurfi ekkert að vera að draga í einhverja flokka hvað það varðar að treysta framtíðarstöðu Hóla. Ég treysti því að þar komi allir flokkar að og þess vegna var ég að nefna það, frú forseti. Ég vona að hv. þm. Pétur H. Blöndal styðji það líka að starfsemin á Hólum í Hjaltadal fái fjármagnið sem hún þarf til að geta haldið eðlilegri starfsemi og þeirri reisn sem verið hefur á henni undanfarin, sem ég var einmitt að víkja að í ræðu minni.