141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að kannski halda aðeins áfram með það sem hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Jón Bjarnason voru að ræða hér á undan og snýr að Hólaskóla.

Nú liggur alveg fyrir að ef ekki verða gerðar breytingar á fjárlögum fyrir árið 2013 er í raun og veru verið að skrúfa fyrir súrefni til viðkomandi stofnunar, Háskólans á Hólum. Það er hægt að segja að þá sé búið að dæma skólann til dauða, ef ég nota það orð þótt það sé ekki fallegt. Það liggur þá líka fyrir, þær upplýsingar sem hafa komið fram, að forsvarsmenn skólans munu grípa til þeirra aðgerða að nánast loka skólanum. Það er bara þannig. Auðvitað er því mikilvægt að útlistað verði með skýrum hætti hvernig staðið verður að málunum.

Mig langaði líka að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur nú verið samkvæmur sjálfum sér og verið að rifja upp kosningaloforð stjórnarflokkanna, eða svik frekar á kosningaloforðum, þar sem hann fór mjög vel yfir það sem snýr að niðurgreiðslunni eða flutningnum á raforku. Hv. þingmaður vitnaði í góða grein sem fyrrverandi hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson skrifaði. Þar kemur fram að það vantar um 600 millj. kr. til að standa við samkomulagið sem stjórnarflokkarnir lofuðu í kosningunum og hann fór hér yfir. Því vil ég líka spyrja hv. þingmann hvaða væntingar hann hefur um að við því verði orðið. Kannski eru það fá kosningaloforð sem hv. ríkisstjórnarflokkar eiga eftir að svíkja að þetta er það eina. Auðvitað er mikilvægt að eitthvað verði til viðbótar.

Hv. þingmaður nefndi líka Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki og ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns hvað það varðar. Ég vil spyrja hann: Er skynsamlegt þegar svona er komið fyrir grunnstofnunum úti á landsbyggðinni að fara að setja 500 millj. kr. í að opna náttúrugripasýningu í Reykjavík?