141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:11]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Hólaskóla þá tek ég undir það hjá hv. þingmanni að á því máli verður að taka. Sá sem hér stendur varð skólastjóri 1981. Þá hafði skólanum verið lokað í tvö ár og var óvissa um framhaldið. Þegar ég var ráðinn 1. apríl 1981 var ég eini starfsmaður skólans. Skólinn hefur vaxið og dafnað og ég held að við öll séum stolt af því. Ég fór þaðan 1999 en þar hefur verið vel haldið á spöðum alveg til þessa dags og mikill metnaður. Það er bara fullkomin ósvinna hvernig stjórnvöld koma fram við skólann og þessa landbúnaðarskóla, Hólaskóla og Hvanneyri, í þeim efnum. Ég treysti á þingmeirihluta í því. Hver og einn þingmaður ber þar ábyrgð og það er í þingsalnum sem málum er endanlega ráðið.

Sama gildir um Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki og víðar. Ég vil kalla eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum um landið því það liggur fyrir loforð um að við þessi fjárlög skuli frekari starfsemi ekki vera skorin niður og hún frekar styrkt en hitt, hringinn í kringum landið. Við þekkjum þá miklu mótmælaöldu sem kom alls staðar að af landinu í fyrra við þann gríðarlega niðurskurð sem þá átti að keyra fram. Sem betur fer var horfið frá því.

Þingsalurinn og ræðustóllinn er til þess að við berum fram þau mál, ræðum þau og skiptumst á skoðunum um þau. Ég legg þau fram hér og fagna undirtektum hv. þingmanns. Ég treysti á Alþingi til að taka skynsamlega á málum og ég tala nú ekki um að fara að mínum ágætu tilmælum.