141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:14]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu snýst það um forgangsröðun. Heilbrigðisþjónustan er svo ofboðslega viðkvæm, ekki síst á landsbyggðinni, eins og hv. þingmaður minntist á með heilbrigðisstofnunina og þjónustuna í Snæfellsbæ. Það er svo gríðarlega viðkvæmt, um leið og maður fer að skera niður þjónustuna verður líka erfiðara að halda fagmenntuðu starfsfólki þannig að þetta rekur sig hvað á annars horn. Þess vegna legg ég áherslu á það.

Ég hef ekki sérstaka skoðun á þessari sýningu en ég nefndi hér, og þar veit ég að við hv. þingmaður erum sammála, þær hundruð milljóna kr., ef það eru ekki milljarðar, sem fara í umsóknina um Evrópusambandið. Væri ekki nær að taka þá peninga til að styrkja og standa að baki velferðarþjónustunni, heilbrigðisþjónustunni, menntamálunum og því og hætta þeirri vitleysu sem er jú engum til góða? Ef hún heldur svona áfram miðar hún að því að við framseljum okkar fullveldi sem við erum algjörlega andvígir, við stöndum vörð um íslenskt fullveldi.