141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:47]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bjartsýni skiptir máli vegna þess að með bjartsýni sækja menn fram. Ég hafði hins vegar allan varann á þegar ég talaði um bjartsýni hér áðan, vegna þess að ég benti á að það eru ýmis boðaföll sem við sjáum fram undan. Við þurfum að fara samtaka í gegnum þau verkefni. Hér var talað um að það væri stefnt að hallalausum fjárlögum fyrir árið, hvað, 2011, ekki rétt? (PHB: 2013.) 2013, það er rétt, það var markmiðið sem menn settu sér. Við vitum öll ástæðuna fyrir því að það hefur ekki tekist, en við skulum ekki gera lítið úr þeim árangri sem hefur náðst og því sem hefur tekist í að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs. Það er ekkert lítið sem við höfum náð saman í þeim efnum.

Það er dálítið sérstakt að hér hafa menn verið tilbúnir að gagnrýna hástöfum það að gripið sé til aðgerða, að skorið sé niður, að reynt sé að hagræða, að tekið sé á vandanum sem blasir við. En að sama skapi eru menn tilbúnir að koma upp og segja: Það bara gekk ekkert, ykkur tókst ekki að gera þetta, þið náðuð ekki öllum ykkar árangri. Sömu aðilar og gagnrýna meira og minna allar aðgerðir sem var farið í af því þær voru ómögulegar, af því það var verið að skera einhvers staðar niður, það var einhver að finna fyrir því, það var einhvers staðar verið að taka á hlutunum. Við verðum að vera svolítið samkvæm sjálfum okkur í því hvernig við mætum þessari umræðu.