141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt stjórnarskrá má ekki greiða fé úr ríkissjóði nema þess hafi verið getið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samt kemur það í ljós aftur og aftur þegar ríkisreikningur birtist að það vantar ekki bara einn eða tvo milljarða, heldur tugi milljarða, samanlagt langt yfir 100 milljarða á síðustu tveimur árum. Er eitthvert útlit fyrir að það stoppi á þessu ári? Og er einhvers staðar reiknað með þessu í fjárlögum eða fjáraukalögum? Svo eru menn hissa á því að skuldir ríkissjóðs vaxi og vaxtagreiðslurnar vaxi stöðugt upp í himininn.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Þekkir hann kenningu um að skattstofnar séu tengdir skattlagningu, þ.e. að þegar maður eykur skattlagningu óhæfilega minnki skattstofninn og jafnvel tekjur ríkissjóðs af viðkomandi skattstofni? Þekkir hv. þingmaður slíkar kenningar? Getur verið að stefna ríkisstjórnarinnar að skattleggja annars vegar og skerða hins vegar, í atvinnuleysi þegar menn fara af launaskrá hjá ríkinu og beint inn á launaskrá hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, sé röng stefna? (Forseti hringir.)