141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:50]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er ákveðinn ballans í því hvert menn geta teygt sig í skattlagningu upp á það að hámarka tekjurnar, en það er jafn vitlaust að halda því fram að eftir því sem skattarnir eru lægri verði tekjurnar hærri. Það þýddi að ef menn væru með nánast enga prósentu í skatti væru þeir með mestu tekjurnar. Maður gæti stundum skilið umræðuna á þann veg.

Varðandi agann í fjármálum nefndi ég það áðan að hér vantar skýrar fjármálareglur. Það nær engu tali að við séum á hverju hausti að afgreiða fjárauka upp á stórar fjárhæðir til að mæta umframkeyrslu. Að sumu leyti hefur hún auðvitað átt rétt á sér og annað er eitthvað sem menn hafa ekki haft neina stjórn á. Staða og hlutverk fjárlaganefndar er í raun og veru ekkert í þeim efnum. Ég tek undir t.d. þær tillögur að nýrri stjórnarskrá þar sem fjárlaganefnd hefur það í hendi sér að það fari engar greiðsluheimildir út umfram það sem samþykkt hefur verið í fjárlögum, öðruvísi en það hafi verið afgreitt (Forseti hringir.) og staðfest af fjárlaganefnd hverju sinni.