141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einn þingmaður stjórnarflokkanna sagði í ræðu í dag að niðurskurðartímanum væri lokið, nú þyrfti ekki að skera meira niður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ekki þurfi að skera meira niður. Ég hef áhyggjur af svona yfirlýsingu vegna þess að mér sýnist að sumar tillagnanna sem verið er að leggja fram kalli á frekari útgjöld. Þau geta á endanum leitt til þess að það þurfi einmitt að skera meira niður, því við höfum ekki enn séð hvernig þessir ágætu stjórnarflokkar sem nú halda um stjórnartaumana ætla sér að greiða fyrir allt það sem á að gera. Það hlýtur að vera forsenda þess að geta aukið skuldbindingar að geta greitt fyrir þær.

Það er til dæmis lagt til að það komi arður frá Seðlabanka Íslands. Mig langar að spyrja hvernig sá arður verður til.

Ég er líka að velta fyrir mér hvað af verkefnum í fjárfestingaráætlun skila arði eftir nokkur ár til ríkissjóðs? Mér sýnist þetta aðallega vera verkefni sem eru fyrst og fremst gjalddagaliðir, það er verið að setja styrki í ákveðin verkefni sem eru svo sett inn í fjárfestingaráætlun. Þar með er ég ekki að segja að þetta séu slæm verkefni, þannig að því sé haldið til haga, heldur eru þau einfaldlega á röngum stað. Þau eru ekki fjárfestingarverkefni að mínu viti.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvað sé gert til að auka tekjur. Hvar er hvatinn til þess að við fjölgum störfum og eflum hér atvinnulífið? Ég fæ ekki séð að það sé mikill hvati í þessu frumvarpi, því það er enn þá verið að innheimta alla þá skatta sem búið er að leggja á og slíkt. Auðvitað vantar okkur tekjuöflunarfrumvörpin, þau koma nú seint eins og venjulega.

Mig langar að vita hvaðan tekjurnar eiga að koma því við sjáum það, og það sjá það allir, að það eru meiri líkur en minni á að tekjur ríkissjóðs, (Forseti hringir.) t.d. af okkar helstu útflutningsgreinum, fari minnkandi á næstu árum vegna þeirrar stöðu sem er á erlendum mörkuðum. Samt ætlar ríkisstjórnin að leggja auknar álögur á þessa atvinnugrein.