141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:54]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri greinarmun á því sem heitir annars vegar niðurskurður og hins vegar hagræðing. Ég sagði áðan að þeim sára, erfiða niðurskurðartíma sem við höfum þurft að ganga í gegnum eftir hrun er lokið. Það þýðir ekki að ekki sé ástæða til að halda áfram uppi aga varðandi eðlilega hagræðingu í rekstri samfélagsins. Það á ávallt að vera það vakandi leiðarljós sem stjórnvöld og fjárlagayfirvöld horfa til hverju sinni.

Varðandi tekjuramma og arðgreiðslur vísa ég til þess að ríkisendurskoðun hefur yfirfarið tekjuramma fjárlaga og talið að þær forsendur sem þar eru lagðar upp standist allar og að það sé frekar varlega farið heldur en hitt, þannig að ég hef ekki áhyggjur af þeim þætti. Ég hef miklu meiri áhyggjur af útgjaldaþættinum vegna þess að það er hann sem hefur brostið í fjárlögum, frekar en tekjuramminn.

Það er spurt um hvaða hvati og tekjur liggja fyrir í þeim fjárfestingarramma sem lagt er upp með í þessum fjárlögum. Sá hvata- og tekjurammi liggur í því að verið er að efla tækifæri til nýsköpunar, nýþróunar og tækniþróunar í samfélaginu. Það er verið að veita milljarða til þess að efla, styrkja og breikka atvinnurammann sem við þurfum að hafa í samfélaginu. Við þurfum að horfa til framtíðar í þeim efnum. Það skiptir miklu að í samfélagsþróuninni horfum við til tækni og framfara, eins og þjóðin hefur sýnt með dugnaði sínum og elju og þátttöku í því nýja atvinnusamfélagi sem við búum við í dag. Þar erum við í fremstu röð (Forseti hringir.) og við þurfum að styrkja þá sprota enn frekar.