141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég hef skilið svar hv. þingmanns rétt eru atriði í tillögum til fjárfestingaráætlunar til þess að breikka tekjurammann eða auka tekjur ríkissjóðs. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég átta mig ekki á hvernig liðir eins og húsafriðunarsjóður, Netríkið Ísland, Græn skref og Vistvæn innkaup ríkisstofnana, Hönnunarsjóður, Myndlistarsjóður o.s.frv. auka tekjur ríkissjóðs til að standa undir sér. Það þarf örugglega að setja meiri fjármuni í þessi verkefni. Það sem ég var að reyna að spyrja hér að, fáum við tekjur af þeim? Ég átta mig ekki alveg á hvernig, en þau kunna hugsanlega að leiða til einhvers góðs í framtíðinni ef þau eru styrkt.

Ég spyr aftur: Seðlabanka Íslands er ætlað að greiða arð. Hvaðan kemur sá arður?

Hér er gert ráð fyrir að Rarik, flutningur á raforku, greiði arð til ríkisins. Er það ekki þannig að á endanum eru (Forseti hringir.) það íbúar landsins, helst landsbyggðarinnar væntanlega, sem þurfa að nota þjónustu þessa fyrirtækis sem greiðir þennan arð?