141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst afskaplega gott innlegg í þá rökræðu sem við eigum að eiga hér í þingsal. Hv. þingmaður fór yfir marga áhugaverða hluti. Hann gerði að umtalsefni að hefðum við staðið betur saman og unnið meira saman hefðum við náð betri árangri, því er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég vil nefna að t.d. þegar við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins höfum lagt fram efnahagstillögur í þrígang, hef ég sagt að það væri auðvitað mjög æskilegt að fá gagnrýni á þær, en það var því miður mjög lítil þátttaka í umræðunni. Ég ítrekaði í þeirri umræðu að ég væri ekki alveg sannfærður um að þetta væri allt alveg 100% rétt, þess vegna væri mjög mikilvægt að hafa gagnrýnar umræður.

Ég heyrði að hv. þingmaður tók undir ákveðna hluti sem ég kom inn á í minni ræðu, sem snúa að því að setja fjármálareglur. Ég held að það sé mjög mikilvægt við þessar aðstæður. Hv. þingmaður talaði líka um að það væri mikilvægt að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því að við þyrftum að setja okkur fjármálareglur þar sem við hefðum ákveðinn ramma sem við röðuðum inn í með það að markmiði að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Svo gætum við hugsanlega víkkað rammann þegar komið væri niður fyrir ákveðið skuldaþak, gætum haft reglurnar breytilegar eða endurskoðað þær. Ég vil kalla eftir því hjá hv. þingmanni hvort hann sé sammála því.

Ég tek líka undir að það skiptir nánast ekki máli hvaða stjórnarflokkar eru við völd á hverjum tíma. Ég held að þetta sé áskorun sem við þurfum að takast á við, sérstaklega meðan staða ríkissjóðs er með þeim hætti sem hún er. Ég held líka að þetta sé mikilvægt í ljósi þess að þetta eru akkúrat þær reglur sem Alþingi setti sveitarfélögunum.