141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við erum nokkuð sammála um mikilvægi þess að setja fjármálareglur. Ég var að hugsa, meðan hv. þingmaður var að svara mér, að kannski sé það vegna þess að við komum úr sveitarstjórnargeiranum. Þar er þetta með þeim hætti sem hv. þingmaður hefur lýst og ég hef gert hér margsinnis. Við þurfum að ná einhverri samstöðu um að leysa málin og taka tillit til sjónarmiða hver annars. Mér finnst allt of lítið gert af því hér. Það er nefnilega þannig í sveitarfélögum að þegar kosningarnar eru búnar fara sveitarstjórnir í langflestum tilfellum, auðvitað ekkert öllum, að vinna sem ein heild. Þó það sé ákveðinn meiri hluti hefur minni hlutinn alltaf mjög mikið vægi og það er hlustað á gagnrýni hans. Þannig að ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það að þetta væru betri vinnubrögð að þróa inn í framtíðina því við erum öll í sama liði og markmiðið er það sama, að ná tökum á halla ríkissjóðs.